140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:02]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Mig langar að spyrja hv. þingmann um þau ummæli sem hann vitnaði til sem féllu fyrr í þessari umræðu hjá hv. þm. Skúla Helgasyni sem fjallaði um útgerð og þá sem starfa við sjávarútveg á mjög svo niðrandi hátt.

Við höfum orðið vör við það á undanförnum þremur árum, þann tíma sem þessi ríkisstjórn hefur starfað, hvernig hv. þingflokkur Samfylkingarinnar ræðst ítrekað að grunnatvinnugreinunum, bæði með þeim málum sem lögð eru fram og eins í málflutningi sínum. Við höfðum séð þetta varðandi bæði sjávarútveg og landbúnað, þeim tveimur atvinnugreinum sem eru grunnatvinnugreinar landsbyggðarinnar. Samfylkingin kemur ítrekað fram og ræðst að þeim. Við munum eftir umræðunni sem drifin var áfram af Samfylkingunni sem snerist um þær gríðarlegu afskriftir sem orðið hefðu í sjávarútvegi. Svo þegar farið var að skoða þetta var það einungis lítið brot af því sem hafði verið afskrifað í verslun og þjónustu vegna þess mikla vaxtar sem varð í þeim geira á höfuðborgarsvæðinu.

Mig langar að biðja hv. þingmann að svara því hvað hann telji að vaki fyrir þingflokki Samfylkingarinnar með því að ráðast æ ofan í æ gegn grunnatvinnugreinum landsins. Af hverju þarf ríkisstjórnin og Samfylkingin ítrekað að vera í stríði við atvinnulífið, í stríði við þá sem eru að skapa tekjur í þessu landi, í stríði við þá sem eru að reyna að sporna gegn brottflutningi fólks frá landinu? (Forseti hringir.) Það er með ólíkindum að fylgjast með þessu. Hvað (Forseti hringir.) býr þarna að baki?