140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:04]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður gerir miklar kröfur til mín um að ég geti útskýrt af hverju allir eða flestir hv. þingmenn Samfylkingarinnar gangi fram með þessum hætti. Ég geri mér bara enga grein fyrir því.

Hv. þingmaður spurði mig líka út í ummæli hv. þm. Skúla Helgasonar sem ég vitnaði í í ræðu minni áðan. Þau eru auðvitað ekki til eftirbreytni og ég verð að bera þá von í brjósti að hv. þingmaður sjái að sér og komi hér upp og biðjist afsökunar á því sem hann sagði. Menn segja stundum eitthvað í hita leiksins og þá er mjög æskilegt að menn beri það til baka.

Ég vil líka minna hv. þingmann á að hér komu einstaka hv. þingmenn Samfylkingarinnar og sögðu undir þessum lið: Við erum að taka stöðu með þjóðinni gegn útgerðarauðvaldinu, taka stöðu með fólkinu, og notuðu alla þá frasa sem þeir nota yfirleitt í þessu sambandi. Þá langar mig að rifja upp þá sögu fyrir hv. þingmanni, sem hann þekkir jafn vel og ég, að þegar hæstv. forsætisráðherra kom hér fram á sínum tíma í júní 2009 með hina svokölluðu Icesave-samninga fyrri, án þess að þingflokkur Samfylkingarinnar væri búinn að lesa þá, þá gerðu þeir engar athugasemdir við það, ekki neinar. Hæstv. forsætisráðherra sagði við fjölmiðla: Þingflokkur Samfylkingarinnar stendur algjörlega einarður að þessu máli, gerir engar athugasemdir. Og það hafði engum gefist tækifæri til þess að lesa þetta vegna þess að þá voru ekki komin fram öll gögn í málinu. Engar athugasemdir.

Ég velti því fyrir mér af hverju það gerist líka núna að enginn hv. þingmaður Samfylkingarinnar gerir athugasemdir við að þetta mál gangi óbreytt fram, án þess að vita í raun hverjar afleiðingarnar verða, áður en það hefur verið reiknað út. Það er mjög merkilegt og til umhugsunar af hverju það er. Kannski löngunin til að komast í Evrópusambandið sé svo mikil að hér verði að setja allt á hnén til að reyna að réttlæta það, að eina leiðin til þess að komast úr hremmingunum sé að sækja um aðild að Evrópusambandinu þó að þar sé nú heldur slæmt ástand þessa dagana. Þeir bera kannski þá von í brjósti.