140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:06]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Í upphafi vil ég segja að það er hárrétt hjá hv. þm. Ásbirni Óttarssyni að þingflokkur Samfylkingarinnar og hæstv. forsætisráðherra ætlaðist til þess að Icesave-samningarnir yrðu samþykktir. Þeir voru fyrst ekki kynntir í ríkisstjórn. Síðan átti ekki að sýna þá í þingflokkum stjórnarflokkanna. Þetta fór raun í gegnum allar flokksstofnanir Samfylkingarinnar, óséður samningur upp á tugi eða hundruð milljarða, sem enginn vissi hvað fól í sér. Það er í rauninni með ólíkindum að þessi stjórnmálaflokkur, Samfylkingin, og eins að hluta Vinstri hreyfingin – grænt framboð, skuli geta starfað hér á þingi án þess að farið hafi verið ofan í það hvernig slíku var hleypt í gegnum allar stofnanir flokksins án þess að nokkur gerði athugasemdir við það. Í öllum eðlilegum samtökum hefðu átt að blikka þarna einhver ljós.

Hv. þingmaður fjallaði um þann niðurskurð sem orðið hefur á landsbyggðinni síðustu ár. Við höfum séð hvernig ríkisvaldið og forstöðumenn ríkisstjórnarinnar hafa verið að skera niður á landsbyggðinni í heilbrigðiskerfinu og opinberri þjónustu. Öll þau sveitarfélög allt í kringum landið sem hafa ályktað um þetta veiðigjaldsmál segja að það muni fara mjög illa með þessi byggðarlög. En það hefur komið fram í máli nokkurra stjórnarliða, þeirra örfáu sem hafa talað við þessa umræðu, að veiðigjaldið muni hins vegar styrkja landsbyggðina. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann geti frætt þann sem hér stendur á því hvernig stjórnarliðar geti komist að þeirri niðurstöðu að þetta styrki landsbyggðina og hvort hv. þingmaður (Forseti hringir.) deili ekki þeirri skoðun með mér að það væri hyggilegast að ríkisstjórnin ætti ekki í fleiri byggðastyrkingaraðgerðum á þessu kjörtímabili, (Forseti hringir.) vegna þess að landsbyggðin muni að öllum líkindum ekki þola það.