140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:55]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé alveg ljóst, eins og margir hafa bent á, að nái þetta fram að ganga muni það ekki hvað síst koma illa niður á litlum útgerðum sem muni glíma við mikil vandamál og það mun síðan leiða til aukinnar samþjöppunar eins og hv. þingmaður bendir á.

Mér finnst mjög sérstakt að fylgjast með málflutningi hv. stjórnarliða sem tala um að það sé í góðu lagi þó að fyrirtæki allt í kringum landið, ekki hvað síst á landsbyggðinni verði gjaldþrota, það rísi upp önnur fyrirtæki. Við höfum enga vissu fyrir því að þau fyrirtæki sem rísi úr rústum þessara gömlu fyrirtækja verði með starfsemi sína á landsbyggðinni. Þess vegna hallast ég að því, frú forseti, af því að hv. þm. Skúli Helgason sagði hér í umræðum að ákveðnum aðilum væri skítsama um starfsfólk sem ynni í fiskvinnslu, að þeir sem tala hvað djarfast fyrir þessu máli, þú fyrirgefur orðalagið frú forseti, þeim sé skítsama (Forseti hringir.) um landsbyggðina, því miður.