140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:57]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég kom inn á það í ræðu minni áðan að það væri hægt að gagnrýna fyrirhuguð veiðigjöld fyrir að vera í fyrsta lagi of há en í annan stað að þau ættu að renna með einhverjum hætti beint til þeirra byggðarlaga sem þurfa að inna þau af hendi. Þetta er í fullu samræmi við ályktun fjórðungsþings Vestfjarða sem ég las hér áðan og í fullu samræmi við það sem hv. þingmaður lagði fram þegar hann gegndi embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Það vekur hins vegar furðu að núverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skuli ganga fram og hækka veiðigjaldið úr öllu hófi og samhliða því hunsa allar hugmyndir um að það renni til landsbyggðarinnar. Maður fer nú að velta því fyrir sér hvort það sé ekki helst til langt síðan þessi ágæti hæstv. ráðherra hafi búið, (Forseti hringir.) starfað eða lifað í samfélagi á landsbyggðinni.