140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:01]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Breytingartillaga hv. þingmanna Jóns Bjarnasonar og Atla Gíslasonar er góðra gjalda verð og á bak við hana er sú byggðahugsun sem er eðlileg í þessu efni. Hins vegar breytir það því ekki að veiðigjaldið sem slíkt er enn of hátt og það breytir því ekki sem kemur fram til að mynda í umsögn hjá Snæfellsbæ að 17 af 24 fyrirtækjum muni fara þar í þrot. Það að þeir fjármunir sem muni setja þessi fyrirtæki í þrot renni síðan til sveitarfélaganna breytir ekki þeim vanda að gjaldið er of hátt rétt eins og hv. þingmaður benti á. En sú tillaga sem fyrir liggur af þeirra hálfu um að gjaldið síðan renni til byggðanna er klárlega hin eina rétta í stöðunni. Maður furðar sig á því að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skuli ekki sjálfur leggja það til, komandi af landsbyggðinni.