140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:03]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé hárrétt hjá hv. þingmanni að aukin skattheimta leggist í þessu tilfelli á landsbyggðina vegna þess að stór hluti þeirra fyrirtækja sem um ræðir hafa starfsemi sína á landsbyggðinni. Þegar skatturinn rennur síðan í ríkissjóð vinnur þessi aukna skattheimta gegn uppbyggingu á landsbyggðinni. Það er ekki hægt að segja að þetta geri neitt annað.

Ég hallast að því að til þess að breyta þessari þróun verðum við annaðhvort að stokka skattkerfið sjálft upp þannig að sveitarfélög eftir landsstærð eða öðru fái aukna hlutdeild í skattstofnunum eða að fara samhliða í einhvers konar skattaívilnanaaraðgerðir til handa landsbyggðinni eins og þekkist í flestum öðrum norrænum löndum. (Forseti hringir.) Ég benti á Noreg í ræðu minni. Ég held klárlega að við þurfum (Forseti hringir.) að umbylta þessu kerfi því að það er þjóðhagslega dýrt (Forseti hringir.) ef landsbyggðin leggst af.