140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:04]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er þingmaður höfuðborgarsvæðisins en ég fullyrði samt að velflestir Íslendingar horfa með mér með ugg til þeirrar þróunar sem við höfum horft upp á undanfarin 30, 40 og jafnvel 100 ár þar sem allt fjör virðist streyma úr sveitinni og af landsbyggðinni til Reykjavíkur. Ég held að menn þurfi að byrja á því að átta sig á þessu og síðan að reyna að hamla gegn því.

Ég er hins vegar ekki hrifinn af því að sveitarfélögin fái peninginn vegna þess að þá fer hann aftur til opinberra aðila. Það vantar að gefa fólki fleiri tækifæri til að vinna sjálft með eigin tekjur og eigin eignir. Það er það sem þetta frumvarp gengur sérstaklega gegn, sem og öll skattstefna ríkisstjórnarinnar. Þess vegna spái ég því að mannfjöldaflutningur af sveitinni og landsbyggðinni muni frekar aukast en hitt, því miður.