140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:08]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um að það er ekki gott að etja saman höfuðborginni og landsbyggðinni. Það sem ég vitnaði til hér áðan og las upp úr eru umsagnir sveitarfélaga í því kjördæmi sem ég er kjörinn fyrir, Norðvesturkjördæmi. Það vill svo til að það er landsbyggðarkjördæmi og það vill svo til að þær umsagnir um þetta mál sem komu úr Norðvesturkjördæmi báru allar þann keim að menn hefðu áhyggjur af þessu máli út frá byggðaþróun.

Ég kom inn á umsögn frá Norðurlandi vestra þar sem fjallað var um hvernig byggðarlag þar hefði þróast á undanförnum árum og hve mikið störfum hefði fækkað. Menn hafa gríðarlegar áhyggjur af því að mörg byggðarlög séu að verða svo veik, þau séu að verða svo smá að það verði mjög erfitt að snúa þróuninni við ef lengra verður gengið. Mörg þessara sveitarfélaga benda á að 4 þús. milljónir í fyrirhuguð veiðigjöld (Forseti hringir.) geti orðið dropinn sem (Forseti hringir.) fylli mælinn.