140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:09]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er sammála hv. þingmanni hvað varðar að breyta þurfi þessum frumvörpum til að ekki komi til þess sem öll þessi sveitarfélög eru að vara við. Ég vil benda hv. þingmanni á að þó að ég sé þingmaður fyrir Suðvesturkjördæmi er ég fædd og uppalin í sjávarplássi sem heitir Akranes og er í kjördæmi hv. þingmanns. Ég þekki því sjávarútveginn ágætlega af eigin reynslu.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi skoðað og velt fyrir sér í tengslum við veiðigjöldin, veiðiskattinn eða hvað við köllum það, annars vegar afturvirkni þessa skatts og hvort hann standist stjórnarskrá og hins vegar hvort sú reikniregla sem sett er, svo óljós og matskennd, brjóti hugsanlega í bága við 77. gr. stjórnarskrárinnar eins og Bonafide lögmenn hafa bent á í (Forseti hringir.) umsögn sinni sem og Helgi Áss Grétarsson.