140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:24]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar að spyrja hann út í athyglisverða frétt sem ég rak augun í en Ísland hefur verið tilnefnt fyrir fiskveiðistjórnarlögin — ekki fyrir þau lagafrumvörp sem nú hafa verið lögð fram heldur lögin sem samþykkt voru árið 2006, um stjórn fiskveiða, og eru þau lög sem stjórn fiskveiða við Ísland byggist á. Þau alþjóðlegu samtök sem tilnefna Ísland heita World Future Council og markmið þeirra er að láta stjórnmálamenn minnast ábyrgðar sinnar og þeirrar siðferðislegu skyldu að hafa komandi kynslóðir ávallt í huga þegar ákvarðanir eru teknar á þingi og í ákvörðunarferlinu öllu.

Ég mundi segja að þetta væri athyglisvert í ljósi þess að núverandi ríkisstjórn hefur talað mjög lengi hart gegn því fiskveiðistjórnarkerfi sem nú er við lýði. Það sem vekur athygli mína er það að þessi samtök veita fyrst og fremst viðurkenningu fyrir umhverfisvernd og sjálfbærni.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann út í þessa frétt.