140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:26]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni fyrir þessa spurningu. Ég held að þetta sé einmitt dæmi um þá viðurkenningu sem íslenska fiskveiðistjórnarkerfið hefur hlotið á alþjóðlegum vettvangi, enn ein staðfestingin á því að íslenskur sjávarútvegur er í forustuhlutverki í heiminum þegar kemur að skynsamlegri nýtingu þessara náttúruauðlinda.

Ríkisstjórnin hefur gjarnan kvartað undan því að ekki sé nægilega vel tekið eftir árangri hennar í efnahags- og atvinnumálum hér á landi en hún hljóti mikið lof fyrir það í útlöndum. Á því virðist hún þrífast og virðist vera haldreipi hennar. Ég held að ríkisstjórnin ætti að hlusta eftir þessum skoðunum og til dæmis eftir því sem fram kom nýlega í The Economist og á vefsíðu Forbes.

Í The Economist segir að íslensk fiskveiðistjórn sé meðal þeirra bestu í heimi. Svo virðist sem flestir aðrir en ríkisstjórn Íslands sjái kosti íslenska fiskveiðistjórnarkerfisins en það þykir til fyrirmyndar víða í heiminum, bæði vegna hagkvæmni veiðanna og ekki síður vegna takmörkunar á sókn í fiskstofnana.

Á vefsíðu Forbes segir að skipan sjávarútvegsmála á Íslandi þyki til fyrirmyndar á alþjóðavettvangi. Þrátt fyrir það haldi ríkisstjórnin ótrauð áfram að gera fiskveiðar á Íslandi óhagkvæmari á sama tíma og samkeppni á erlendum mörkuðum fari vaxandi. Þessi spurning er feitletruð í þessu veftímariti: Hvers vegna ætlar Ísland að eyðileggja besta fiskveiðistjórnarkerfi í heimi? Stórt er spurt, virðulegi forseti. Það taka fleiri sem fylgjast með eftir þessu og ekki bara hér á Íslandi.

(Forseti hringir.) Ég ætla að koma aðeins meira inn á þá ábyrgð sem þessu fylgir og hv. þingmaður nefndi, í seinna andsvari mínu.