140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:33]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ítreka að ég sakna þess að þingmenn stjórnarflokkanna skuli ekki sýna þá ábyrgð að koma og halda uppi málefnalegri umræðu um þetta mál. Ég sé að einn þingmaður úr stjórnarflokkunum er mættur, hv. þm. Mörður Árnason (Gripið fram í.) — sem er stuðningsmaður málsins. Hv. þm. Jón Bjarnason er hér líka og hefur oft setið hér og tekið þátt í umræðunni.

Ég kalla eftir ábyrgri umræðu. Ég kalla eftir því að þeir sem eru fylgjandi þessu máli komi hingað upp og flytji mál sitt og kannist við ábyrgð sína á því. Enginn þingmaður gerir það. Ég kalla eftir því að þeir komi hingað upp. Eða er málið svo viðkvæmt sem raun ber vitni, ef maður les á milli línanna, að þeir treysti sér ekki til þess? Er það málið? Ég veit það ekki.

Auðvitað vaknar sú spurning, í framhaldi af því sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir velti hér upp áðan, hvort mögulega sé að styttast í kosningar, hvort hugmyndin sé sú hjá hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur að boða eigi til kosninga samhliða þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál. Það má vel vera. Við sjáum alla vega að ríkisstjórnarheimilið er eins og púðurtunna sem komin er mjög nálægt því að springa. Ágreiningurinn stendur þar innan dyra. Það er ástæðan fyrir því að þingið er enn að störfum og á öllum þessum málum ólokið.

Stóru málin eru enn í nefnd. Rammaáætlunin hefur ekki verið rædd í atvinnuveganefnd í marga daga og við erum rétt byrjuð vinnuna. Er hugmyndin sú að afgreiða ekki rammaáætlun? (Forseti hringir.) Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera? Það hefur ekkert með umræðu okkar um þetta mál að gera, hvort (Forseti hringir.) hún klárast eða ekki. Virðulegi forseti, ég held að það get vel verið (Forseti hringir.) að ástandið á ríkisstjórnarheimilinu sé orðið svo viðkvæmt að vænta megi (Forseti hringir.) kosninga innan skemmri tíma en er (Forseti hringir.) samkvæmt þeim reglum sem við vinnum almennt eftir.