140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:45]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Menn uppskera eins og þeir sá í þessum efnum sem öðrum og hjá kjósendum erum við dæmd af verkum okkar. Í því endurspeglast einfaldlega sú staða sem er í skoðanakönnunum núna þó að maður taki niðurstöðum þeirra á hverjum tíma alltaf varlega. Þær geta sveiflast nokkuð til.

Því ber ekki að neita að hæstv. ríkisstjórn er með sín stærstu mál undir í þinginu og hefur verið síðustu vikurnar og þróunin er með þeim hætti sem hún er á þeim vettvangi. Það getur ekki talist annað en áfellisdómur yfir þeim vinnubrögðum sem hér eru ástunduð. Menn verða svo dæmdir af verkum sínum þegar að kosningum kemur.

Eftir höfðinu dansa limirnir, það er bara þannig. Við sjáum það endurspeglast í ummælum hv. þm. Skúla Helgasonar fyrr í dag þegar hann sagði mjög ómaklega að atvinnurekendum í sjávarútvegi væri skítsama um starfsfólkið sitt. (MÁ: Það var í gær.) (Forseti hringir.) Og hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir sagði að starfsfólk væri notað sem mannlegir skildir í þessari baráttu. (Forseti hringir.) Ég skora á þessa þingmenn og aðra þingmenn sem hugsa og tala eins (Forseti hringir.) að koma á Austurvöll á morgun, mæta þessu starfsfólki, horfa í augun á því (Forseti hringir.) og segja því að það sé kúgað af atvinnurekendum.