140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:47]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég geri mér grein fyrir því að svigrúm forseta er ákaflega lítið í þessum kjánalegu litlu leiksýningum sem fulltrúar LÍÚ-flokkanna hér á þingi hafa uppi í þessari málþófsumræðu (JónG: Alltaf málefnalegur, karlinn.) og ætlast ekki til að forseti geri annað en að fylgja þessum skrýtnu þingsköpum um það mál. En hins vegar verður að bregðast við, og forseta er skylt að gera það líka, þegar hv. þm. Jón Gunnarsson fer með rangt mál um það að stjórnarandstæðingar hafi ekki tekið þátt í þessari umræðu.

Ég vil því biðja forseta um að staðfesta hvort það sé ekki rétt niðurstaða úr lítilli könnun hjá mér að við 2. umr. um þetta mál hafi tekið til máls níu stjórnarliðar, þeir Björn Valur Gíslason, Helgi Hjörvar, Steingrímur J. Sigfússon, Kristján L. Möller, Ólína Þorvarðardóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Magnús Norðdahl og Jón Bjarnason, hv. þingmenn og ráðherrar, og sennilega talað samtals í fjóra til fimm tíma. Er þetta ekki rétt? (Forseti hringir.) Fer hv. þm. Jón Gunnarsson ekki með staðlausa stafi eins og hans er siður og háttur á Alþingi Íslendinga?