140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:48]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek til máls undir þessum lið til að lýsa yfir undrun minni á því að þingmenn skuli geta komið hingað upp til að fá syndaaflausn fyrir kollega sína í þinginu. Það er ekki tilgangurinn að milli mikilvægra ræðna hlaupi stjórnarliðar upp og þylji upp nöfn þeirra sem tala hér.

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta fyrir neðan allar hellur. Ef ríkisstjórnarflokkarnir þurfa að rétta hlut sinn í þinginu varðandi umræðutíma þá ættu þingmenn þeirra bara að setja sig á mælendaskrá frekar en senda einn liðsmann sinn til að telja upp nöfn allra þeirra sem hér hafa talað.

Þetta stundum við ekki í stjórnarandstöðunni. Við tölum efnislega um frumvarpið en ekki er hægt að segja það sama um fulltrúa ríkisstjórnarflokkanna.