140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:50]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að elta ólar við hv. þm. Mörð Árnason. Það er ekki þess virði að svara skítkasti sem gjarnan flýgur frá honum úr ræðustól Alþingis.

Ég vil hins vegar geta þess að þegar ég kalla eftir ábyrgri umræðu stjórnarþingmanna á ég við að þeir séu þátttakendur í þessu með okkur. Ég fagna því að við sjáum þó einstaka stjórnarþingmenn birtast hér í salnum núna og ég vona að þeir haldi málefnalegar ræður.

Ég vona til dæmis að hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir skýri það enn frekar sem við höfum verið að spyrja hér að í kvöld, hvað hún hafi átt við í dag þegar hún var að tala um þjóðaratkvæðagreiðslu og hvort hún vilji ekki senda þau frumvörp um sjávarútvegsmál sem hún ber ábyrgð á í þjóðaratkvæðagreiðslu. Vill hún ekki gera það? Eða treystir hún sér ekki til þess?

Ég vil gjarnan að hæstv. forsætisráðherra svari þessari spurningu líka. Hún hefur ítrekað sagt að senda eigi þessi mál í (Forseti hringir.) þjóðaratkvæðagreiðslu. [Frammíköll í þingsal.] Varla vill hæstv. forsætisráðherra senda (Forseti hringir.) [Háreysti í þingsal.] málið ófullgert í þjóðaratkvæðagreiðslu, (Forseti hringir.) varla vill hæstv. forsætisráðherra senda einhverjar óljósar spurningar, ég geri ráð fyrir að hún vilji senda frumvarpið sem hún stendur á bak við.