140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:57]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Lífsmelódían er í sjálfu sér ekkert flókin. Hún byggist að öllu jöfnu á reynslu og er ólygnust. Það var lenska og viðtekin venja í minni sveit á bryggjunum þar sem maður var alinn upp að þangað kom stundum ágætisfólk sem var úti á þekju. Þá var okkur kennt að við ættum að vera góðir við þetta fólk. Það mundi rjátlast af því reynsluleysið og það hefði sömu möguleika og allir aðrir til að sýna eðlilegt brjóstvit og skilning. Þess vegna held ég að það sé ástæðulaust að vera að karpa hér um ákveðna hluti sem hafa skeð á síðustu mínútum. Ég tel til að mynda að við eigum að vera góð við hv. þm. Mörð Árnason, hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur og fleiri sem eru að véla um hluti sem deilt er um því að það virðist vera himinn og haf á milli þeirrar reynslu og upplifunar sem fólk hefur í brjósti sínu.

Hv. þm. Mörður Árnason orðaði það svo að þær væru leiðinlegar hér þessar litlu leiksýningar LÍÚ-flokkanna. Hvað er hv. þingmaður að segja? Það er auðvitað óskiljanlegt, en það verður að virða viljann hjá þingmanninum fyrir verkið, reynsluleysið og skort á verksviti er lýtur að einföldum hlutum þar sem slorið ræður ríkjum. Hv. þingmaður getur svo sem hrósað happi yfir því að hafa ekki þurft að alast upp og veltast um í slorinu en þetta kemur því máli ekkert við sem við erum að ræða.

Virðulegi forseti. Sjávarútvegur Íslands er hagsmunamál þjóðarinnar allrar. Þess vegna verjum við alla þætti sjávarútvegsins hvort sem það eru útvegsmenn, fiskvinnslan, sjómenn, landverkafólk o.s.frv. Við verjum alla þessa þætti, við slítum þá ekkert í sundur, vegna þess að þeir eiga allir samleið og verða að vinna saman og búa við eitthvert kerfi sem er traust og hægt að byggja á til ákveðinnar framtíðar.

Þetta er ekki bara spurning um tekjur. Bara það að fylla nýjasta skip Íslendinga, Heimaey VE 1, af olíu kostar 80 millj. kr. Hvað hefur ríkissjóður miklar tekjur af því? Það er fljótreiknað, þær eru verulegar. Fáum dettur í hug þegar þeir tala um útgerð og veiðiskap við Ísland að það kunni að kosta 80 milljónir að fylla eitt skip af olíu. (LRM: Hvað gerir túrinn?)

Hv. þingmaður sem kallar hér fram í spyr: Hvað gerir túrinn? Fyrst er að fara í túrinn áður en maður reiknar hann út. Það er til skammar að hv. þingmaður sem kemur úr sjávarplássi og tengist í marga ættliði sjómönnum, sem að vísu hafa nánast allir selt þann kvóta sem þeir höfðu, (LRM: Kjaftæði, kjaftæði.) ekki skipin heldur seldu þeir kvótann líka, skuli tala svona. Það skal tala varlega í þannig slettum. Það er staðreynd. Þegar spurt er með slíkum hroka er rétt að fá smápus í andlitið á móti.

Þrjár af hverjum smábátaútgerðum geta ekki staðið í skilum ef til kastanna kemur með þau lög sem hæstv. ríkisstjórn er að reyna að nauðga í gegnum Alþingi með ofbeldi, án raka, með geðþóttaákvörðunum og útskýringum sem eru út í hött.

Hagræðing undanfarinna ára, virðulegur forseti, hefur þýtt að skuldsetning hefur aukist auk þess að svokallaður auðlindaarður hefur farið að verulegu leyti út úr greininni. Þessu er ekkert hægt að mótmæla, þetta er hluti af rekstri þessarar vinnslugreinar. Það er staðreynd að þegar kvóti hefur verið keyptur hefur hlutinn af hinni svokölluðu auðlindaarðsemi farið út úr greininni. Þar fyrir utan erum við ekkert að fjalla um það, sem er mjög alvarlegt mál, að við Íslendingar búum við elsta fiskiskipaflota í heimi hjá þjóð sem kallar sig fiskveiðiþjóð, veiðiþjóð. Það er ekki mikil forsjálni að huga ekki að því að hafa borð fyrir báru til að endurnýja þann tækjabúnað sem við þurfum til að lifa áfram á Íslandi í velferðarþjóðfélagi þar sem maður er manns gaman og menn eru eins sáttir og jafnir og unnt er.

Tillögur ríkisstjórnarinnar, þ.e. púsluspilið sem boðið er upp á án þess að það sé vel merkt, þýða til að mynda 5 milljarða skatt á aðeins eina verstöð, Vestmannaeyjar. (Gripið fram í: … rangt.) Það er of hár skattur og allt of óljóst af því sem fjallað er um, hugsanlegar breytingar sem lögin kosta, að menn vita ekkert og eru hérna með alls konar slettur og upphrópanir um að þetta sé rangt og þetta sé rétt. Það á einfaldlega, virðulegi forseti, að krefjast þess að farið sé ofan í saumana á þessum hlutum. (Gripið fram í: Það er búið …) — Já, já, en það þarf samt að gera enn þá meir. (Gripið fram í: … ert að segja …) Það þýðir ekkert fyrir einhverja þingmenn sem halda að þeir viti allt og geti allt — þó að þeir séu snjallir og gáfaðir, svo gáfaðir að það renni frá þeim gáfur, en það sést ekki, það sést ekkert renna. Þetta er óþolandi í samfélagi okkar. Þetta er svo langt frá öllu sem kallast eðlilegt fyrirkomulag í okkar byggðum og borgum.

Ég nefndi áhrifin á Vestmannaeyjar. Áhrifin á Eyjar eru þau að 8 af 11 fyrirtækjum standa ekki af sér gjaldtökuna. Hjá þessum fyrirtækjum eru 400 starfsmenn. Þessi fyrirtæki eru með 58% af aflaheimildum í Vestmannaeyjum. Hvað er verið að gera? Hvað er verið að taka frá einum og færa til annars án þess að það sé nokkur annar til að taka á móti því? Það er ekki til húsakostur, það er ekki til bátakostur hjá þessum hinum sem á að úthluta til, nema menn séu að tala um Portúgal, Kína, Spán eða þrælabandalögin Þjóðverja og Frakka. Eruð þið að tala um það, hv. þingmenn Vinstri grænna? Svarið þið nú og látið ekki lumma yfir ykkur deigið óbrúklegt til baksturs.

Útreikningarnir eru rangir, sama hvað fyrrverandi skólameistarar, netagerðarmeistarar og aðrir segja, þeir eru rangir, þeir eru kolrangir. Tveir plús tveir eru tveir, fjórir, fimm, það er hægt að reikna þetta allt út í algebru, en við vitum ósköp vel að tveir plús tveir eru einfaldlega fjórir. Það er mergurinn málsins, það er viðmiðið sem við höfum. Það er litla gula hænan í hnotskurn.

Aukningin í pottana er nær 6%, í potta þar sem trillukarlinn á Akranesi veiðir á trillunni sinni fyrir utan Akranes og er að baksa við að borga af þeim 40 milljónum sem hann skuldar vegna fjárfestingar í trillunni. Við hliðina á honum veiða strandveiðipottamenn, rafvirkjameistari, kennari og læknir, frítt í boði sjávarútvegsráðherra. Hvers á trillukarlinn að gjalda? Er þetta jafnræðið? Er þetta sannleikurinn? Er þetta réttlætið sem þið, hv. þingmenn Vinstri grænna, viljið? Maður reiknar ekki með að leggja svona spurningu fyrir bögglauppboðið í Samfylkingunni því að þar er bara hipsum haps hver svörin eru. (ÓÞ: Fá þeir bátana gefins?)

Skynsamleg spurning, ótrúlega skynsamleg spurning eins og svo margt sem kemur frá hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur. Það eru bara engin verðmæti á bak við þessa skynsemi, það er enginn sannleikur, það er ekkert réttlæti og það munar því.

Langtímasjónarmið eiga að víkja með þessum lögum sem er verið að reyna að véla í gegnum þingið, víkja fyrir skammtímasjónarmiðum. Stutt og laggott partí, drepum beljuna, étum hana og hvað svo? (Gripið fram í.) Við vitum ósköp vel að fjölgun báta er of mikil og það hefur verið offjárfesting. Við getum heldur ekki reiknað með að hver bátur veiði akkúrat ákveðinn fjölda kílóa og það eigi að skila sér allt inn í hagstæðasta bókhaldið. Það verður að vera borð fyrir báru eins og í öðru í veiðiskap og veiðimennsku.

Þrjár lögfræðistofur telja að þessi frumvörp standist ekki stjórnarskrá. Þeir vísa til 40. gr. um skattlagningu í lögum, 72. gr. um eignarréttinn, 75. gr. um atvinnuréttinn og 77. gr. um afturvirkni. Að auki eru frumvörpin óskýr að mati fjölmargra lögfræðinga. Svona lög eiga ekki að vera óskýr. Þau eiga að vera klár og kvitt, sýnileg og ekki fela neitt. (HöskÞ: Ekki hlusta á þessa lögfræðinga.) Ef hv. þingmenn Norðurlands og Eyfirðinga hlæja að þessu — (BVG: Hann er að hlæja að þér.) Hvaða tístudúkka var að spila þarna úr bakherbergi? Hv. þm. Björn Valur Gíslason, sem þorir ekki einu sinni í salinn til að hlusta á það sem ég segi, hann er skríðandi hérna í hliðarherbergjum eins og einn af köttunum og mjálmar án þess að sýna andlitið á sér. Það er þó það smekklegasta sem hann hefur gert lengi. [Hlátur í þingsal.]

Afskriftir eru mjög miklar í sjávarútvegi og það verður að reikna með því og þær tengjast auðvitað afskriftum fjármálafyrirtækja um leið. Skatttekjur minnka, framkvæmdir minnka, arðsemi verður minni og minni kaup á þjónustu. Það varð uppi fótur og fit í Grindavík í gær þegar menn hættu allt í einu við að kaupa kostinn um borð í bátana. Það var doði í öllum verslunum bæjarins af því að bátarnir ætluðu ekki að róa, þeir áttu ekki að fara á sjó. Það sýnir bara hvað skiptir miklu máli í öllum þáttum og öllum geirum samfélagsins, í stóru og smáu, að þetta gangi snurðulaust fyrir sig.

Það er kannski sorglegast hvað þessi frumvörp byggja á ómarkvissum byggðaaðgerðum, tæta í sundur það sem menn hafa verið að reyna að byggja upp á löngum tíma og berjast fyrir samkeppni þeirra sem hafa forskotið á höfuðborgarsvæðinu í atvinnu, í heilbrigðisþjónustu, í menntun, í menningarlífi o.s.frv. — forskot umfram landsbyggðina, mikið forskot. Ef landsbyggðarþingmenn hafa ekki áttað sig á þessu held ég að þeir megi biðja guð að hjálpa sér.

Markmiðin fimm í frumvörpunum, að stuðla að verndun og sjálfbærri nýtingu fiskstofna við Ísland, að stuðla að farsælli samfélagsþróun með hagsmuni komandi kynslóða að leiðarljósi, að treysta atvinnu og byggð í landinu, að hámarka þjóðhagslegan ávinning af sjávarauðlindinni og tryggja þjóðinni eðlilega auðlindarentu, að sjávarútvegurinn sé arðsamur og búi við stöðugt rekstrarumhverfi. Þetta er fallega sagt og vel meint, en ríkisstjórnin er í þessum efnum eins og vegprestarnir, vörðurnar á heiðum landsins sem vísa þann veg sem þær fara ekki sjálfar. Íslenska ríkisstjórnin er grjóthnullungavarða, illa hlaðin og skilar engum árangri, hvorki skjóli né stefnu. [Hlátur í þingsal.]

Að stilla því upp sem einu af markmiðum að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameiginleg og ævarandi eign íslensku þjóðarinnar, það er enginn ágreiningur um það. Ég veit ekki um neinn hv. alþingismann sem hefur ágreining um það, hins vegar skiptir miklu máli að auk þess að hnýta það upp í lögum um fiskveiðistjórnina þarf að hnýta það upp í stjórnarskrá og það er vandasamt að gera það þannig að það standist allar skoðanir í alþjóðasamningum og alþjóðagerð, þátta sem við þurfum að taka tillit til. Þess vegna þurfum við að nota reynslu og þekkingu færustu manna, lærðra sem leikra, til að vinna úr því.

Afleiðingin af þessum frumvörpum, sem við erum að ræða þó að það sé ekki nema eitt komið fram enn því að hitt er á beitulausum krók einhvers staðar í ranni ríkisstjórnarinnar, leiðir til þess að þjóðarhagur versnar og minna verður fyrir alla, þar með talið fólkið sem býr í landinu og þjóðina í heild og ríkissjóð. Það er því ekki hægt að taka þessum hlutum þó að menn séu allir af vilja gerðir. Þeir einu sem hugsanlega græða eru þeir sem koma aftur inn í kerfið, jafnvel eftir að hafa selt sig út úr því oftar en einu sinni, oftar en tvisvar, oftar en þrisvar, oftar en fjórum sinnum, allt að fimm sinnum. Hér inni eru hv. þingmenn sem hafa reynslu af þessum leik þó að þeir segi kannski: Nei, það var ekki seldur kvóti, það var selt skip, það bara fylgdi kvóti. (ÓÞ: Þetta er ekki forsvaranlegt úr ræðustól.)

Þetta er staðreynd málsins — (Gripið fram í: … þingmann hérna.) þetta eru staðreyndir málsins (ÓÞ: Einhverjar dylgjur um þingmann.) (TÞH: Það er ekki komið rautt ljós.) (ÓÞ: Þetta er ekki forsvaranlegt.) og menn eiga ekkert að leika sér að þessum hlutum (Forseti hringir.) því að þá fá þeir það bara í andlitið. Þess vegna er best (Forseti hringir.) að tala um hlutina eins og þeir eru, virðulegi forseti.

(Forseti (RR): Forseti biður hv. þingmenn að gæta orða sinna.)