140. löggjafarþing — 114. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[00:47]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Aðeins vegna þeirrar umræðu sem hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir hóf hér áðan, um að þingmenn ættu ekki að brigsla hver öðrum úr ræðustól, þá er ég alveg sammála því. En mér fannst athugasemdir hennar gagnvart hv. þm. Árna Johnsen ómaklegar vegna þess að hann var í sjálfu sér ekki að vekja athygli á öðru en því að fólk gat eftir ævistarfið selt sig út úr þessu kerfi okkar og þannig innleyst ævistarf sitt.

(Forseti (RR): Forseti biður hv. þingmann um að halda áfram umræðu.)

Já, en sú er breytingin í þessu frumvarpi að það er ekki hægt. En talandi um að brigsla þá ganga hv. þingmenn Samfylkingarinnar að mínu mati lengst í því og er oft full ástæða til að hæstv. forseti geri athugasemdir við það. Ég nefni sem dæmi ummæli um að heilli stétt sé skítsama um starfsfólk sitt, fólk sé notað sem mannlegir lifandi skildir, að ákveðnir þingmenn, eins og (Forseti hringir.) hv. þm. Mörður Árnason gerði í ræðu áðan, séu LÍÚ-taglhnýtingar (Forseti hringir.) í þessum málum, þetta eru brigsl (Forseti hringir.) sem mér finnst að hæstv. forseta beri að gera athugasemdir við.