140. löggjafarþing — 114. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[01:15]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður segir, það er í rauninni með ólíkindum að frumvarpið skuli borið uppi af þingmönnum Norðausturkjördæmis. Ef þessar breytingar munu leika eitthvert kjördæmi grátt er það einmitt það, okkar ágæta kjördæmi. Ef maður horfir yfir allt kjördæmið, alveg frá Siglufirði austur og suður til Djúpavogs, er nánast í hverjum einasta firði stöndugt og öflugt sjávarútvegsfyrirtæki og fólk sem bindur vonir við að þeirri atvinnustarfsemi sé frekar reistur grunnur þannig að menn þurfi ekki að hafa áhyggjur af lífsviðurværi sínu.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann um áhrifin sem þetta mun hafa á Akureyri vegna þess að á Akureyri býr um helmingur kjósenda í Norðausturkjördæmi (Forseti hringir.) og þar er gríðarlega mikill og góður sjávarútvegur og hefur verið lengi.