140. löggjafarþing — 114. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[01:16]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Það er nokkuð ljóst að það er mikill þjónustuiðnaður við sjávarútveg á Akureyri. Hvort heldur við erum að tala um útgerðarfyrirtæki þar, fiskvinnslu eða þjónustuiðnaðinn er alveg ljóst að þetta mun hafa þau áhrif þar að fækka störfum. Það er ekkert flókið.

Það sem mér svíður sárt í þessu er að sjá að breytingarnar sem gerðar hafa verið á þessu kerfi, og eðlilega þarf að gera annað slagið breytingar á því, lífið er bara þannig, hafa flestar gengið út á að færa fiskveiðiheimildir frá aflamarksskipum yfir á smábátaútgerð og þeirri þróun er haldið áfram í því frumvarpi sem hér liggur fyrir. Til dæmis er í fiskveiðistjórnarfrumvarpinu gert ráð fyrir því að borað verði gat á strandveiðikerfið með því að ráðherra fái heimild til (Forseti hringir.) að úthluta strandveiðibátum ákveðnum dögum í maí og júní. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að menn ætli að láta það fara í gegn.