140. löggjafarþing — 114. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[01:23]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Það er margt satt og rétt í ræðu hv. þingmanns og það eitt vil ég segja um Seðlabankann og það sem frá honum kemur að Seðlabanki Íslands má þó eiga það að á síðustu vikum hefur hann sett fram varnaðarorð til þessarar ríkisstjórnar. Það kann vel að vera að það sé liður í launabaráttu seðlabankastjóra, (VigH: Já!) að hann sé að mýkja (VigH: Skapa þrýsting.) og skapa þrýsting. Ég skal engu spá um það, en seðlabankastjóri varaði við of miklum opinberum framkvæmdum og þá dúndraði hæstv. ríkisstjórn fram þessari makalausu fjárfestingaráætlun sem byggir á væntum tekjum. Það er rétt hjá hv. þingmanni að nú liggur fyrir þetta álit frá Seðlabankanum þar sem er varað við þeirri gjaldtöku og þeim frumvörpum sem liggja fyrir.

Þetta ber allt að sama brunni og af því að hv. þingmaður nefndi gjaldtökuna af stóriðjunni minni ég á að samningurinn hljóðaði upp á að þetta væri þriggja ára verkefni. (Forseti hringir.) Það stendur til að svíkja það samkvæmt síðustu (Gripið fram í: Nú?) fréttum, að þessi skattlagning verði framlengd (Forseti hringir.) og það er þá í takt við annað sem frá ríkisstjórninni kemur.