140. löggjafarþing — 114. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[01:25]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hér kom hv. þm. Björn Valur Gíslason í ræðustól Alþingis áðan og brigslaði þingmönnum um að vera drukknir í ræðustól þingsins. Þegar eftir því var gengið við hann eftir að hann fór úr ræðustól staðfesti hann að hann ætti við mig í þessu tilfelli.

Nú get ég upplýst hæstv. forseta um að ég hef ekki bragðað áfengi í kvöld. Ég var fyrr í kvöld á fundi með sjálfstæðismönnum í Mosfellsbæ til kl. 22.30 og var mættur niður í þing í ræðu kl. rúmlega 23 og hef ekki smakkað neitt áfengi á þessum tíma.

Það er orðin mikil málefnaþurrð og lágkúra í vinnubrögðum meiri hluta þingmanna þegar komið er fram með þessum hætti og ég geri kröfu á það, virðulegi forseti, að forsætisnefnd verði kölluð saman til fundar og að þessi ummæli þingmannsins fái viðeigandi meðferð hjá hv. forsætisnefnd.