140. löggjafarþing — 114. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[01:27]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hér hafa rétt í þessu orðið mjög alvarleg tíðindi, alvarlegir hlutir sem varða einmitt fundarstjórn forseta. Eitt það lágkúrulegasta sem menn geta gert er að bera menn röngum sökum í því skyni að sverta þá. Það var það sem gerðist þegar hv. þm. Björn Valur Gíslason bar ótilgreinda þingmenn hér þeim sökum að þeir væru undir áhrifum áfengis. Það hefur verið upplýst að hann hafi átt við hv. þm. Jón Gunnarsson sem nú hefur sagt okkur frá því að þetta séu algjörlega tilhæfulausar ásakanir.

Þetta eru mjög alvarlegir hlutir og segja okkur hvað menn geta sokkið djúpt í lágkúrunni í umræðunni. Svona atburðir verða auðvitað til þess að rjúfa allt trúnaðartraust sem þarf að ríkja á milli þingmanna ef þingstörfin eiga að geta gengið eðlilega fyrir sig. Ég tel að það sé nauðsynlegt að hv. þingmaður komi hér upp og ég hafði vænst þess að hv. þm. Björn Valur Gíslason kæmi hingað og bæðist afsökunar á orðum sínum. Ég tel eðlilegt að hæstv. forseti (Forseti hringir.) víti hv. þingmann fyrir ummælin.