140. löggjafarþing — 114. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[01:32]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég skil það vel að forseti hafi áhyggjur af þessu máli. En mér finnst það ómaklegt hjá virðulegum forseta að biðja þingmenn í þessari umræðu um að gæta orða sinna sérstaklega miðað við það hvernig málflutningurinn hefur verið.

Ég sé ekki að þingmenn hafi viðhaft neitt það sem óeðlilegt er gagnvart svo alvarlegum ásökunum. Þingflokksformaður Vinstri grænna kemur hér og brigslar þingmönnum um að vera drukknir í ræðustól Alþingis og taka þar þátt í umræðunni, sem ekki er fótur fyrir. Þetta er gríðarlega alvarlegt mál, hann er að tala í þjóðþinginu. Það er alveg augljóst, virðulegi forseti, að þingmenn meirihlutaflokkanna eru að fara á taugum yfir þessu máli og lágkúran er að verða algjör af þeirra hálfu í þessari umræðu.

Hvað veldur er ekki gott að segja, en eflaust hefur það áhrif að starfsmenn sjávarútvegsfyrirtækja streyma nú til höfuðborgarinnar, (Forseti hringir.) koma á skipum sínum hingað til að gera alvarlegar athugasemdir við þau frumvörp sem hér er verið að ræða. Og ég vildi ekki vera í þeim hópi (Forseti hringir.) sem hefur látið þau orð falla sem sumir hv. stjórnarþingmenn hafa gert um starfsmenn sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi.