140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

mótmæli útgerðarinnar gegn breytingum á stjórn fiskveiða.

[10:31]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin setti sér það markmið að leiða fram niðurstöðu í sjávarútvegsmálum sem tæki á stærstu álitaefnunum og ágreiningsefnunum og skapaði um þau mál meiri sátt. Þessi sjónarmið áréttaði hæstv. sjávarútvegsráðherra og landbúnaðarráðherra þegar hann tók við embætti nú um áramótin. Nú blasir við öllum að þetta markmið hefur ekki náðst. Það ríkir fullkomið ósætti, ekki einasta hér innan þings, sem blasir vitaskuld við öllum, heldur líka utan þings. Það á við um sjómannasamtökin, útvegsmenn stærri og smærri skipa, fiskverkendur, fiskmarkaði, Alþýðusamband Íslands, ýmsa þjónustuaðila sjávarútvegsins og sveitarfélög, svo nokkuð sé nefnt.

Í dag hafa svo útvegsmenn og starfsfólk sjávarútvegsfyrirtækja boðað til fundar á Austurvelli kl. 4 í dag til að lýsa andstöðu sinni við fiskveiðifrumvörp ríkisstjórnarinnar. Það blasir því við að málið er komið í hnút og vonda stöðu. Það ríkir fullkomið ósætti og er augljóst að þessi mál eiga mjög langt í land. Sáttin sem menn höfðu að eðlilegu leiðarljósi er úti í hafsauga og nú vaknar spurningin: Hvernig sér hæstv. ríkisstjórn þessi mál þróast? Hver verða næstu skrefin? Það blasir við hverjum manni að þessi mál munu ekki klárast á næstu dögum. Fram undan eru forsetakosningar og hingað til hefur það verið almennur skilningur að Alþingi bæri að gefa öðrum almennum kosningum rými á hinum lýðræðislega vettvangi til þeirrar umræðu sem er nauðsynlegur aðdragandi kosninga í lýðræðisríki. Það hefur til dæmis alltaf verið gert gagnvart sveitarstjórnarkosningunum nema nú síðast. Því verður ekki trúað að ríkisstjórnin ætli að koma eins fram gagnvart forsetakosningunum sem eru sögulegar í ljósi þess að í fyrsta skipti á lýðveldistímanum má segja að boðið sé fram með alvöruhætti gegn sitjandi forseta. Þá er mikil gerjun í umræðunni um stöðu og vald forsetans í stjórnskipun okkar og þess vegna er mjög mikilvægt að um þau mál geti farið fram lýðræðisleg umræða.

Þess vegna er afar brýnt að hæstv. ríkisstjórn kynni fyrir þinginu og þjóðinni hvernig hún sjái fyrir sér að þessum málum vindi fram auk þeirra fjölmörgu mála sem enn liggja óafgreidd á Alþingi, sem mörg hver eru mikil ágreiningsmál sem (Forseti hringir.) enn á eftir að ræða mikið og leiða til lykta.