140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

tekjur af virðisaukaskatti.

[10:41]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Virðisaukaskattur er eðlisólíkur gamla söluskattinum að því leyti að hann safnast upp og þar er bæði innskattur og útskattur. Þetta er til að forðast þau uppsöfnunaráhrif sem voru í gamla kerfinu og flestir eru sammála um að virðisaukaskattur að þessu leyti sé sanngjarnari og menn greiði með þessum hætti hver fyrir sig í keðjunni þann skattavirðisauka sem eðlilegur er.

Það eru heildartekjur ríkissjóðs af virðisaukaskatti sem skipta máli og þær hafa ekki rýrnað um nokkurn skapaðan hlut heldur hafa þær fremur aukist. Það geta orðið breytingar meðal annars vegna þess að breytingar verða á samsetningu veltunnar og neyslunnar í landinu þegar til dæmis innlend starfsemi, innlendur samkeppnisiðnaður eykur markaðshlutdeild sína á kostnað innfluttrar vöru. Þá verða tilfærslur í þessum efnum og það hefur gerst í talsverðum mæli vegna gengisbreytingar krónunnar. Ég hef ekki séð svar fjármálaráðuneytisins við spurningu hv. þingmanns en ég get mér til út frá minni afar takmörkuðu þekkingu í skattamálum og ég þigg alla leiðsögn í þeim efnum, að þetta meðal annars geti skýrt talsverðar breytingar af þessu tagi. En svo mikið veit ég vegna þess að ég hef síðustu þrjú ár, og geri enn, vaktað tekjuinnstreymið í ríkissjóð mjög vandlega mánuð frá mánuði, enda munar um minna en að það þróist með jákvæðum hætti. Ég get fullvissað hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur um að það er ekki áhyggjuefni að virðisaukaskatturinn hafi alveg skilað því sem honum hefur verið ætlað samanborið við veltuna í samfélaginu, hann fylgir henni auðvitað mjög náið og skilar núna meiru en hann hefði gert ef ekki hefði verið gripið til hækkunar á honum á miðju ári 2009. Virðisaukaskattskerfið hefur, eins og afgangurinn af skattkerfinu, staðið sig með sóma í því að skila ríkinu tekjum til að vinna á hallanum og koma okkur út úr erfiðleikunum. (Forseti hringir.) Áhyggjur hv. þingmanns af því hvað varðar heildartekjur ríkissjóðs af virðisaukaskatti eru því óþarfar.