140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

rekstur líknardeildar Landspítalans.

[11:03]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég get tekið undir með honum hvað varðar að stofnanirnar sjálfar eigi að forgangsraða innan sinna verkefna. Ég vísa eingöngu í frétt sem var í dagblöðum um að ekki væri hægt að opna þessa nýju deild, í það minnsta ekki nú hvað svo sem síðar kynni að verða á árinu. Það var í ljósi þess sem ég spurði hæstv. ráðherra þessara spurninga.

Ég hef ekki rætt við forstjóra Landspítalans um hvort og þá hvernig og hvenær Landspítalinn hyggst taka við. Ég er aðeins að velta upp þessu máli í beinum tengslum við það sem við ræddum í haust þegar líknardeild Landakotsspítala var lokað því að þá var þetta verkefni fyrirhugað. Í ljósi þess sem hæstv. ráðherra segir er eftirlitsskyldan hans en ekki inngrip í stjórnun neinnar stofnunar og ég þakka hæstv. ráðherra svarið.