140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:17]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Það verður seint sagt að ekki sé nóg um að vera hér á Alþingi. Það er reyndar þannig að ég er hér í ágætisfélagsskap hæstv. forseta og starfsmanns þingsins. Ég get ekki sagt að margir fleiri séu í salnum en ég treysti því að hv. stjórnarliðar muni koma hingað, nóg hafa þeir um þetta mál að segja annars staðar en í þingsal.

Við ræðum hér frumvarp ríkisstjórnarinnar, annað tveggja sem varða breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Í frumvörpunum eru sett fram háleit markmið um að stuðla að vernd og sjálfbærri nýtingu fiskstofna við Ísland, það er markmið sem við getum öll tekið undir. Að stuðla að farsælli samfélagsþróun með hagsmuni komandi kynslóða að leiðarljósi, jú, það er hið ágætasta markmið sem ég held að fáir ef einhverjir dragi í efa. Að treysta atvinnu og byggð í landinu, það er líka mjög gott markmið. Að hámarka þjóðhagslegan ávinning af sjávarauðlindinni og tryggja þjóðinni eðlilega auðlindarentu, já, enn eru þetta markmið sem vel flestir geta tekið undir. Að sjávarútvegurinn sé arðsamur og búi við stöðugt rekstrarumhverfi, allt er þetta gott og gilt.

Stjórnarliðar hafa talað mikið um það að eitt helsta markmiðið með þessum breytingum, og það sem hæstv. ríkisstjórn hafi í raun verið kosin til að gera, sé að gera breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu vegna þess að svo mikið ósætti sé um kerfið, að almenningur krefjist breytinga og að markmiðið sé að stuðla að sátt. Ég leyfi mér að fullyrða, virðulegur forseti, að við höfum aldrei verið jafnfjarri því að ná sátt um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu og einmitt núna.

Við heyrum í fréttum, og hér í þinghúsinu, flautur skipaflotans sem er að sigla hingað inn í höfnina. Við heyrum af því í fréttum að skipin streyma inn. Ég hef ekki átt þess kost að fara niður að höfn í morgun en ég heyri að sagt er í fréttum að það sé tilkomumikil sjón að sjá flotann meira og minna allan á leiðinni inn í höfnina til að mæta hér á fund kl. 4. Fundurinn er ekki til að fagna markmiðum ríkisstjórnarinnar og því að sátt sé að nást um þessi mál. Þvert á móti. Fundurinn er boðaður til að sýna stjórnvöldum fram á að veruleg andstaða er í þjóðfélaginu — meðal útgerðarmanna, meðal sjómanna, meðal fleiri aðila í greininni og væntanlega, við eigum eftir að sjá það í dag, meðal almennings — við þau mál sem við ræðum hér.

Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kom hér kokhraustur í morgun í svari við óundirbúinni fyrirspurn frá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni og hélt áfram að uppnefna og tala niður til útgerðarinnar. Hann sagði, eins og fram kemur á mbl.is, með leyfi forseta, að niðurstöður í löggjafarstörfum ættu ekki að ráðast af „þrýstingsaðgerðum fjársterkra sérhagsmunahópa“.

Þetta er í takt við það sem aðrir hæstv. ráðherrar í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, með hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur í broddi fylkingar, og þingmenn stjórnarliðsins hafa viðhaft.

Nú ætla ég aðeins að ræða um þetta orðbragð og þetta orðfæri og hvernig stjórnarflokkarnir og talsmenn þeirra hafa talað niður til þessarar undirstöðuatvinnugreinar og öllu því sem henni tengist á undanförnum árum og ekki síst núna þegar í orði kveðnu er verið að leita sátta um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu.

Ég ætla að grípa aðeins niður í grein sem hæstv. innanríkisráðherra ritaði á vefrit Vinstri grænna, Smuguna, 5. júní síðastliðinn. Titill greinarinnar er: „Koma fram við þjóðina eins og snærisþjófa.“ Þegar ég sá þessa fyrirsögn velti ég því fyrir mér á hvaða leið hæstv. ráðherra væri og ákvað þess vegna að bregða út af vana mínum og fara inn á þennan vef sem ég sneiði annars hjá vegna þess að hann er ekki til þess fallinn að bæta geð og auka gleði í lífi fólks.

Í þessari stuttu grein tekst hæstv. innanríkisráðherra ákaflega illa upp. Ég ber mikla virðingu fyrir hæstv. innanríkisráðherra Ögmundi Jónassyni en þarna finnst mér hann leiðast út á rangar brautir, sem eru honum til minnkunar og mér finnst algjörlega ótrúlegt að ráðherra í ríkisstjórn Íslands skuli tala á þennan veg til atvinnugreinar sem meðal annars, ekki síst núna á þeim erfiðleikatímum sem við höfum átt við að glíma, hefur lagt sitt af mörkum og gert það að verkum að ekki fór verr. Í greininni eru kunnuglegir frasar. Verið er að tala um einokunarauðvald, samkeppni og frjálshyggju og hnýtt í stefnu Sjálfstæðisflokksins. Hér segir, með leyfi forseta:

„Nú er gríman fallin og útgerðarmenn farnir að beita ofbeldi og hótunum. Þeir hóta sjómönnum því að þeir muni sviptir fjórðungi tekna sinna. Þeir hóta fiskvinnslufólki að fiskurinn verði unninn erlendis (enda sum fyrirtækjanna alþjóðlegir auðhringir). Þeir hóta þjóðinni að þeir muni binda flotann við bryggju. Íslendingum skal refsað eins og snærisþjófi á einokunartímum.“

Þarna vísar hæstv. ráðherra til þeirra aðgerða sem ég ræddi hér áðan. Hann er að vísa til þess að útgerðarmenn ákváðu að flotinn færi ekki úr höfn eftir sjómannadaginn og að vikan yrði nýtt til að funda með starfsfólki, sveitarfélögum, þingmönnum og stjórnvöldum, ef hægt væri. Tilgangurinn var að ná athygli stjórnvalda vegna þess að í allri umfjöllun um þetta mál, bæði í nefndinni og í þjóðfélaginu, hefur það komið algjörlega skýrt fram í öllum umsögnum — og ég er aðeins með aðeins brotabrot af umsögnum á borðinu hjá mér og mun vonandi hafa tíma til að fara aðeins yfir þær hér á eftir — að afstaða manna til þessara breytinga er neikvæð, með örfáum undantekningum. Í umsögnum er varað við afleiðingum þessara breytinga, sumum hverjum ófyrirsjáanlegum vegna þess að ekki er búið að leggja mat á það eða reikna það út hvaða áhrif þær hafa á fyrirtækin í landinu, á sveitarfélögin í landinu, á greinina í heild. Það er ekki búið að vinna þessa vinnu. Það er það sem athugasemdir eru gerðar við, það er þess vegna sem gripið er til þeirra aðgerða sem boðaðar hafa verið í dag. Þetta kallar hæstv. innanríkisráðherra að verið sé að hóta fiskvinnslufólki, hóta þjóðinni því að henni skuli refsað.

Í niðurlagi þessarar greinar hæstv. innanríkisráðherra koma gamalkunnir frasar. Það er verið að tala um sérhagsmunagæsluna, að hagsmunir hinna fáu verði að víkja fyrir hagsmunum heildarinnar, að almenningur kalli eftir breytingum á þessu kerfi, að þetta sé allt gert að kröfu almennings og að almenningur hafi kosið ríkisstjórnina einmitt til að breyta sjávarútvegskerfinu. Ég ætla að hryggja hæstv. innanríkisráðherra með því að lýsa því yfir að ég er allsendis ósammála honum. Ég er ósammála því að núverandi ríkisstjórn hafi verið kosin út á breytingar á fiskveiðistjórnarmálunum. Ég er allsendis ósammála því að vorið 2009, rétt eftir efnahagsáfallið, hafi orðið einhver mikil vinstri sveifla í landinu. Þvert á móti.

Bankakerfið hrundi á okkar vakt. Sjálfstæðisflokkurinn var búinn að vera á vakt í 18 ár, fyrst með Alþýðuflokknum, síðan með Framsóknarflokknum og síðast með Samfylkingunni og á þessari vakt, haustið 2008, varð hér efnahagsáfall. Það var ástæðan fyrir því að í fyrsta sinn, og vonandi í eina sinn í sögunni, var sett á laggirnar fyrsta hreina vinstri stjórnin. Ég leyfi mér að halda því fram að ríkisstjórnin hafi fyrst og síðast verið kosin til að refsa okkur en ekki vegna þess að hér hafi orðið mikil vinstri sveifla. Ef svo hefur verið þá leyfi ég mér að minnsta kosti að fullyrða að sú sveifla er löngu liðin hjá.

Ef hæstv. innanríkisráðherra trúir því sem hann heldur fram hér, að ríkisstjórnin hafi verið kosin út á þetta mál og hafi til þess meiri hluta ætla ég að skora á hann að leggja það í dóm þjóðarinnar. Við skulum bara kjósa um þetta núna, nú er þetta mál í deiglunni og eins fjarri samkomulagi og sátt og það getur verið. Það er tæpt ár til kosninga. Ég segi: Flýtum þeim. Við skulum athuga hvort það sé rétt hjá hæstv. innanríkisráðherra að stjórnarflokkarnir, með þetta mál á oddinum, fengju núna meirihlutastuðning íslenskrar þjóðar. Það er nefnilega ódýrt að tala um að ríkisstjórnin hafi verið kosin til að framfylgja þessu máli í ljósi þeirri aðstæðna sem uppi voru fyrir kosningarnar 2009, það er mjög ódýrt.

Ég verð líka að segja að mér þykir það lýsa algjörri málefnaþurrð þegar hæstv. ráðherrar og þingmenn grípa til þess að nota uppnefni á stjórnmálamenn, á atvinnugrein, á heilu stéttirnar í því augnamiði að vekja athygli á málstað sínum.

Nú ætla ég að fá að grípa aftur niður í grein hæstv. innanríkisráðherra. Lokaorðin í grein hans eru nefnilega þessi:

„Klíkugæslumenn í stjórnmálum, í fjölmiðlum, á lögfræðikontórum, berjast með stórútgerðinni enda hangir tilvera þeirra á sömu spýtu. Baráttan verður löng og ströng en á endanum mun almenningur sigra.“

Ég spyr: Hvað meinar hæstv. innanríkisráðherra með þessu? Er hann til dæmis að væna þá sem hér stendur um að vera klíkugæslumaður í stjórnmálum? Mér þykir það ekki til þess fallið að auka virðingu Alþingis og ég segi þetta nú þegar hæstv. forseti gengur hér um, ég veit að henni er annt um virðingu Alþingis. Klíkugæslumaður í stjórnmálum? Og af hverju kemur þá ekki hæstv. innanríkisráðherra hingað í þingsal og tekur þessa umræðu við okkur þingmenn stjórnarandstöðunnar? Það er nefnilega mjög ódýrt fyrir hæstv. ráðherra að sitja úti í bæ og blogga og uppnefna fólk.

Það er kannski ekkert smekklegra þegar þingmenn koma hér hver á fætur öðrum, eins og gerst hefur síðastliðna daga, og uppnefna menn í þessum ræðustól og væna þá um alls kyns hluti, ég er svo sem ekki að mæla því bót. Það er líka mjög sérstakt þegar menn eiga í ágreiningi að grípa þurfi til þeirra ráða að uppnefna fólk og hafa uppi rangan málflutning.

Því er haldið fram, af því að sú sem hér stendur er væntanlega gæslumaður sérhagsmuna og drifin áfram af annarlegum hagsmunum og hagsmunum annarra en almennings í landinu, að Landssamband íslenskra útvegsmanna stjórni öllu í þessari umræðu og beiti sjómenn og aðra starfsmenn í sjávarútvegsgeiranum ofbeldi, það hefur verið talað um það. Rætt hefur verið um að útvegsmenn séu að nota starfsfólk sitt sem mannlega skildi. Þetta þykir mér einstaklega ósmekklegt vegna þess að þarna er verið að vísa í styrjaldir og til ódæðismanna sem við viljum helst ekki ræða mikið um og líkja einum eða neinum við, hvorki þeim sem við erum sammála né þeim sem við erum ósammála.

Því er beinlínis haldið fram að sjómenn, landvinnslufólk, smábátasjómenn og aðrir sem starfa í sjávarútveginum, séu handbendi útgerðarinnar og svo óttaslegnir að þeir láti teyma sig út í aðgerðir sem eru þeim á móti skapi. Ég ætla út af þessu að grípa í nokkrar fréttir síðustu daga. Hér er til dæmis yfirlýsing sem barst í gær frá sjómönnum Samherja og Útgerðarfélags Akureyringa. Fyrirsögnin á frétt eyjunnar.is frá því í gær er sú að sjómenn Samherja og Útgerðarfélags Akureyringa standi með sínu fyrirtæki. Það kemur yfirlýsing frá sjómönnum þessara tveggja fyrirtækja þar sem spurt er, með leyfi forseta:

„Á hverjum halda stjórnvöld að veiðileyfisgjaldið og kvótatilfærslurnar muni eiginlega bitna?“

Það er mjög góð spurning. Auðvitað bitnar það á öllum þeim sem hafa afkomu sína af sjávarútvegi ef fyrirtækjunum gengur illa. Auðvitað bitnar það á okkur öllum sem þjóð ef þessum fyrirtækjum gengur illa. Það er hægt að vísa í fréttir um stoppið sem orðið hefur í þessari viku á veiðum. Mig minnir að á Grundarfirði eða í Ólafsvík — ég þori ekki að fullyrða hvor staðurinn það var, það var alla vega á Vesturlandi — hafi áhrifin strax komið fram í bænum. Skipin voru ekki að kaupa kost, skipin voru ekki að kaupa aðra þjónustu og það lamaðist allt í bæjarfélaginu. Hvað þýðir það? Jú, það þýðir að um leið og ein atvinnugrein, sem er burðarás líkt og þessi atvinnugrein er, fer að hiksta þá hefur það keðjuverkandi áhrif á alla aðra starfsemi. Auðvitað er það ekki einkamál útgerðarmanna hvernig fiskvinnslan og sjávarútvegurinn í landinu gengur.

Fleiri sjómenn hafa fordæmt þessi vinnubrögð. Hér er frétt af mbl.is í gær þar sem hornfirskir sjómenn fordæma vinnubrögð stjórnvalda og skora á stjórnvöld að draga frumvörpin til baka í óbreyttri mynd og vinna að frumvarpi sem muni leiða til sem mestra sátta meðal almennings. Undir þessa yfirlýsingu rita áhafnir eftirtalinna skipa: Jóna Eðvalds SF 200, Ásgrímur Halldórsson SF 250, Skinney SF 20, Þórir SF 77, Steinunn SF 10, Hvanney SF 51, Þinganes SF 25 og Sigurður Ólafsson SF 44.

Hér er önnur frétt frá því í gær þar sem fram kemur að áhafnir fjögurra skipa Síldarvinnslunnar hf. í Neskaupstað styðji ákvarðanir LÍÚ undanfarna daga að öllu leyti. Þar segir, með leyfi forseta:

„Áhafnirnar sjá fram á mikla tekju- og lífskjaraskerðingu verði frumvörp um breytingar á stjórn fiskveiða óbreytt að lögum. Áhafnirnar skora því á ríkisstjórnina að setjast niður með hagsmunaaðilum og ná sáttum.“

Ég hef talað við sjómenn undanfarna daga og ég hef spurt þeirrar spurningar hvort það sé virkilega verið að kúga menn til að taka þátt í aðgerðum með ógnunum og hótunum varðandi atvinnuöryggi. Ég leyfi mér að fullyrða að viðbrögðin hafa öll verið á einn veg. Engum hefur verið hótað, enginn hefur verið kúgaður. Mönnum er fullkomlega frjálst að styðja þessar aðgerðir eða ekki. Reyndar var það þannig að menn móðguðust hreinlega við þessa spurningu mína og spurðu hvort ég héldi að þeir væru einhverjir aumingjar sem létu segja sér svona fyrir verkum. Auðvitað skilja menn þetta samhengi sem hæstv. ríkisstjórn virðist ekki skilja. Þegar útgerðinni gengur vel þá fá sjómenn góð laun, þá fær fiskverkafólk mikla vinnu og hærri laun, afleidd störf skapast, mikilvæg afleidd störf og þar fram eftir götunum, og ríkissjóður fær skatttekjur, umsvif ríkissjóðs aukast og styrkjast.

Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sagði í upphafi kjörtímabilsins oftar en einu sinni og oftar en tvisvar úr þessum ræðustól, og ég heyrði hann líka hafa þessa skoðun uppi í fjölmiðlum, að tíminn eftir hrun — á þeim tíma sem ég vísaði til, 2009, 2010 og ég tel að þetta eigi enn við — væri ekki tíminn fyrir hugmyndafræðilega sigra eða landvinninga. Og ég var sammála honum á þeim tíma. Þegar íslensk þjóð stóð frammi fyrir risavöxnu verkefni sem fallið bankakerfi og efnahagserfiðleikar höfðu í för með sér, því verkefni að koma íslensku atvinnulífi og samfélagi aftur af stað og virkja þann mikla kraft sem er í íslensku samfélagi, var ég sammála því sem hæstv. núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sagði þá að nú væri ekki tími hugmyndafræðilegra landvinninga.

Ég spyr því: Af hverju í ósköpunum fer hæstv. ráðherra ekki eftir eigin orðum? Þessi þráhyggjubarátta stjórnarflokkanna gegn sjávarútveginum er ekkert annað en pólitísk hugmyndafræðileg barátta sem á sér ekki talsmenn eða fylgismenn nema í þessum tveimur flokkum sem neita að gefast upp þrátt fyrir að það ætti að vera þeim algjörlega augljóst að þeir eru að verða undir í þessari baráttu. Við höfum horft á misheppnaðar tilraunir ár eftir ár. Við höfum horft upp á bílslys, sem kallað var af ráðherra í hæstv. ríkisstjórn, það frumvarp sem lagt var fram fyrir ári. Sem betur fer var það lagt til hliðar og maður hélt satt að segja að það yrði til þess að hæstv. ríkisstjórn mundi læra eitthvað af því og koma fram að nýju með mál sem unnið hefði verið í samráði við greinina, í samráði við sérfræðinga og búið væri að reikna út áhrif þess og meta afleiðingarnar. En nei, hæstv. ríkisstjórn kom fram með mál sem var nákvæmlega jafnumdeilt og fékk jafnneikvæðar umsagnir og hin fyrri mál. Munurinn er bara sá að það var hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon sem lagði þetta mál fram en ekki hæstv. þáverandi ráðherra Jón Bjarnason. Þess vegna er ekki hægt að bakka með þetta mál, þess vegna er ekki hægt að viðurkenna að það er í ógöngum. Hugmyndafræðilegu sigrarnir og landvinningarnir sem hæstv. ráðherra taldi algjörlega óásættanlegt að farið yrði í rétt eftir hrun því að menn ættu að standa saman — það er allt gleymt.

Og hvað er verið að laga? Hvað er það sem menn eru ósáttir við? Mikið er rætt um að arðsemi í sjávarútvegi sé svo mikil að almenningur þurfi að fá að njóta rentunnar. Fínt. Ég leyfi mér að fullyrða að menn eru tilbúnir að ræða hversu há gjaldtaka á að vera af sjávarútvegi. Menn hafa verið tilbúnir að ræða það og öllum ætti að vera það ljóst. Þá er talað um hóflegt gjald en á sama tíma eru lagðar fram hugmyndir um 25 milljarða sem nú eru komnar í 15 milljarða.

Reyndar gerir fjárlagafrumvarpið „einungis“ ráð fyrir 11 milljarða tekjum af veiðigjaldinu en af einhverjum ástæðum hangir ríkisstjórnin á því að tekjurnar verði samkvæmt hennar útreikningum að vera 15 milljarðar og ég hef reyndar heyrt það frá aðilum í greininni að það sé varlega áætlað. Maður spyr sig: Af hverju í ósköpunum eru 15 milljarðar allt í einu orðnir það sem ríkisstjórnin telur hóflegt þegar áformin voru þau, nú síðast í október, að leggja á 10 milljarða gjald?

Því er annars vegar haldið fram að arðsemin sé svo mikil að í nafni réttlætis og sátta þurfi að taka meiri skatta af útgerðinni. Á hinn bóginn er því líka haldið fram að útgerðin sé illa farin eftir þetta ömurlega kerfi sem hæstv. innanríkisráðherra lýsti í fyrrnefndri grein og kallaði það ömurlegt ástand að þjóðin skuli sitja uppi með kerfi sem hún vill ekki. Það er verið að gagnrýna það að sjávarútvegurinn sé í svo lélegu ástandi eftir þetta ömurlega kerfi sem þurfi að umbylta og vegna þess að hann hafi verið að fjárfesta hingað og þangað skipti þetta engu máli, fyrirtækin muni hvort sem er fara á hausinn, fiskurinn verði áfram veiddur en fyrirtækjunum sé ekki við bjargandi. Hvort er rétt? Og ég beini þeirri spurningu meðal annars til hv. þm. Björns Vals Gíslasonar. Hvort er það þannig að úr greininni sé hægt að taka gríðarlega fjármuni til viðbótar vegna þess að hún sé svo stöndug eða að það þurfi hreinlega að hreinsa til og grisja þessi fyrirtæki sem ekki er við bjargandi? Þessi rök stangast á en hafa ítrekað verið notuð í málflutningi hér.

Ég vil til gamans vísa í gamla baksíðu Morgunblaðsins, frá 1. desember 1981. Um hvað erum við að rífast núna? Við erum að rífast um það hversu hár skatturinn á sjávarútveginn á að vera, hve miklu er hægt að ná út úr greininni í formi skattheimtu. En þetta hefur ekki alltaf verið svona. Samt vilja vinstri flokkarnir greinilega breyta kerfinu vegna þess að það sé ómögulegt. Þann 1. desember árið 1981 var efsta fréttin á baksíðu Morgunblaðsins reyndar sú að Davíð Oddsson hafi verið efstur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins en það var nú ekki það sem ég ætlaði að vísa til heldur frétt á miðri blaðsíðu sem mig langar að grípa niður í, með leyfi forseta:

„Byggðasjóður: 32 millj. kr. lánaðar vegna erfiðleika útgerðar og fiskvinnslu. Fjöldi lánsumsókna á leið til sjóðsins. Byggðasjóður hefur lánað á milli 32 til 33 millj. kr. síðustu vikur til fiskvinnslufyrirtækja víðs vegar um land, til að hindra stöðvun þeirra eða koma þeim af stað aftur. Þessar lánveitingar eru allar til bráðabirgða. Auk þess sem sjóðurinn hefur lánað síðustu vikur, er Morgunblaðinu kunnugt um að fjöldi lánsumsókna er væntanlegur til stjórnar sjóðsins og telja forráðamenn þeirra fyrirtækja að ef ekki komi til fyrirgreiðsla frá Byggðasjóði, eða annars staðar þá muni fyrirtækin stöðvast.“

Þetta var veruleikinn 1. desember 1981. Þá var fjöldi fyrirtækja á leið í þrot ef ekki kæmi til opinber fjárstuðningur. Hér eru nefnd mörg fyrirtæki sem fengið höfðu bráðabirgðalán skömmu áður og þar eru mörg fyrirtæki nefnd sem ekki eru starfrækt í dag, meðal annars í mínum heimabæ, en hér er talað um Hraðfrystihús Keflavíkur o.fl. Í fréttinni segir svo að margar lánsumsóknir muni vera á leiðinni eða vera komnar til stjórnar Byggðasjóðs frá fyrirtækjum sem eigi í gífurlegum rekstrarerfiðleikum og muni jafnvel stöðvast ef ekki komi til fyrirgreiðsla í einhverri mynd, og nefnd nokkur fyrirtæki sem Morgunblaðinu er kunnugt um. Þetta er veruleikinn sem blasti við árið 1981.

Ég heyrði frá sjómanni sem skildi ekki — hann tók það sérstaklega fram að hann væri ekki kjósandi minn eða míns flokks — á hvaða vegferð ríkisstjórnin væri. Hann skildi ekki að menn áttuðu sig ekki á því að það hefði tekið 20 ár að koma útgerðinni í þann farveg sem hún er í dag og í þá stöðu sem hún er í dag, og nú ætti að eyðileggja þetta allt. Hann segir: Þetta er svo vitlaust. Síðan er það allt annað í kringum þetta, allt sölukerfið og markaðssetningin, það fer út um gluggann ef hver sem er getur farið og veitt. Það er búið að taka 20 ár að gera greinina að því sem hún er í dag og allir eru að hámarka arðinn út úr henni en nú er verið að setja það allt í hættu.

Þá kem ég einmitt að þeim punkti sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra gerði að sínum í ræðu á starfsmannafundi sem ég sótti hjá Brimi fyrr í vikunni. Þá talaði hann um að hann væri ekki ógnin við sjávarútveginn, það væri ekki Steingrímur J. Sigfússon eða Vinstri grænir eða ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sem væri ógnin við fiskveiðistjórnina, við sjávarútveginn. Nei, það væri staðan á mörkuðum í Evrópu, ástandið í Evrópu, ástandið í heiminum, efnahagsaðstæður, að þar syrti í álinn og það væri það sem við þyrftum að óttast. Og ég er sammála hæstv. ráðherra um að það ættum við að óttast. Það er grafalvarlegt mál ef aðstæður á mörkuðum leiða til þess að við getum ekki selt vöruna okkar. En þá spyr ég: Af hverju í ósköpunum er hæstv. ríkisstjórn og hæstv. sjávarútvegsráðherra þá að auka á óvissuna á hugsanlega versta tíma?

Tímann eftir hrun hefði átt að nýta í að laga það sem er í ólagi. Menn geta haft allar skoðanir á kvótakerfinu en þá er um að gera að laga það sem er að því. Ekki að umbylta kerfinu til að fullnægja einhverjum gömlum pólitískum hugsjónum. Pólitískir landvinningar, sagði hæstv. ráðherra, þetta er ekki tíminn fyrir þá. En samt rembist ríkisstjórnin eins og rjúpan við staurinn í hverju málinu á fætur öðru af pólitískri þrjósku í leit eftir hugmyndafræðilegum landvinningum sem því miður eru algjörlega ömurlegir.

Þetta var veruleikinn sem við blasti 1. desember 1981. Hver er veruleikinn í dag? Það var nefnilega önnur frétt á vef Morgunblaðsins í gær þar sem greint var frá því að Ísland sé nú tilnefnt til verðlauna fyrir fiskveiðistjórnarlögin, sem þessi ríkisstjórn er svo áfram um að breyta og kollvarpa, af alþjóðlegum samtökum sem heita World Future Council, Framtíðarráðið ef við snörum því yfir á þingmálið íslenskuna. Samtökin veita þessi verðlaun á hverju ári fyrir stefnumótun sem er til þess fallin að skapa meiri lífsgæði fyrir þær kynslóðir sem nú lifa og einnig fyrir framtíðarkynslóðir. Stendur það ekki einmitt alltaf upp úr þingmönnum, sérstaklega hv. þingmönnum Vinstri grænna? Ég minnist hæstv. umhverfisráðherra sem kemur ekki svo í ræðustól að hún tali ekki um framtíðarkynslóðir. Nú er verið að tilnefna Ísland fyrir að hafa haft hagsmuni framtíðarkynslóða að leiðarljósi og þessu vilja þeir breyta.

Hér er sagt að tilkynnt verði í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York í september næstkomandi hver vinni til verðlaunanna. Mikið hlakka ég til og ég vona svo sannarlega að við hljótum þessi verðlaun þó ekki væri nema til þess að sjá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fara til New York og taka við þeim. Vonandi hefur honum þá ekki tekist að breyta þessum lögum á þann veg að búið sé að fyrirgera góðum markmiðum og því sem þessi samtök, sem hafa hagsmuni framtíðarkynslóða að leiðarljósi, byggja tilnefningu sína á. En mikið yrði gaman að sjá hæstv. sjávarútvegsráðherra taka við þessum verðlaunum.