140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[13:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rangt sem fram kemur hjá hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur. Meginniðurstaða og megininntak frumvarpanna, annars vegar þess veiðigjaldafrumvarps sem við ræðum hér og hins frumvarpsins sem enn er í atvinnuveganefnd og á eftir að koma til umræðu í þinginu, er samhljóða niðurstöðu sáttanefndarinnar frá 2010 í öllum atriðum, eins og ég las upp áðan. Niðurstaðan er samhljóða hvað aðferðafræði varðar, samkomulag, leyfi eða samninga til 20 ára gegn gjaldtöku, gegn tveimur hlutum í aflaheimildum, annars vegar aflamarki og hins vegar í því sem kallað hefur verið pottur eða hluti 2. Þetta er meginniðurstaða allra þeirra starfshópa sem skilað hafa af sér niðurstöðu í þessum málum síðustu 20 árin, þetta er megininntak frumvarpanna beggja. Ég held að við hljótum að vera sammála um það.

Um hvað erum við þá að deila? Þá erum við að deila um tölur og stærðir. Þá erum við að tala um upphæðir, til dæmis í veiðigjöldum, og magn hvort í sínum hlutanum, í hluta 1 og hluta 2, í stærri pottinum og þeim minni. Um það stendur deilan. Þess vegna langar mig að spyrja: Hvað telur hv. þingmaður að sé eðlilegt miðað við stöðuna í dag að sjávarútvegur greiði í auðlindagjald sem hlutfall af tekjum eða umframarðinum? Hv. þingmaður getur valið þá forsendu sem hún vill miða við. Hvað er eðlilegt afgjald?

Í öðru lagi: Hvað telur þingmaðurinn réttlætanlegt að hluti 2, eða pottur sem ætlaður er til byggðamála, ívilnunar og atvinnutengdra þátta eins og við þekkjum öll, eigi að vera stór? Hvað er réttlætanlegt að hafa hann stóran sem hlutfall af heildarafla eða í magni talið? Hv. þingmaður getur valið hvers konar viðmiðun hún notar í þeim tilgangi, (Forseti hringir.) en ég óska eftir svari við þessum tveimur spurningum.