140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[14:43]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála hv. þingmanni að það er ákveðinn veikleiki í því frumvarpi sem við ræðum og eins í því nefndaráliti sem við ræðum að ekki sé búið að laga þetta.

Gjöld eru víða tekin af ríkinu og þá fyrir veitta þjónustu, eitthvað sem ríkið lætur af hendi, einhverja þjónustu eða eitthvað slíkt. Þá getur maður talað um að gjaldið eigi að vera svona og svona sem er reiknað miðað við verðmæti þjónustunnar sem veitt er. Þegar menn taka gjald af auðlindarentu er það allt annar handleggur. Ríkið er ekki að veita neina þjónustu, það lætur ekkert í staðinn fyrir auðlindarentuna. Auðlindina höfðu menn og hafa haft áður þannig að ég get ekki séð annað en að þetta sé hreinn og beinn skattur. Ef þetta er skattur stenst öll framkvæmdin við ákvörðun skattsins, ákvörðunaraðilinn, álagningaraðilinn o.s.frv., ekki þær kröfur sem gera þarf til skattyfirvalda.

Ég sé ekki annað en að hv. nefnd þurfi að fara í gegnum þetta aftur og ég legg til að nefndin vísi þessu aftur til efnahags- og skattanefndar til að fá um það úrskurð hvort og hvernig hægt er að leggja þennan skatt á þannig að hann sé ákveðinn með lögum og lagður á með lögum en ekki af einhverjum framkvæmdaraðila þar sem valdið hefur verið framselt frá Alþingi.

Þetta er mjög mikilvægt vegna stjórnarskrárinnar sem er jú undirstaða alls. Ég held að þingmenn vilji endilega halda stjórnarskrána, það er mjög mikilvægt að halda hana því að við höfum svarið eið að henni. Svo er verið að setja nýja stjórnarskrá og ég geri ekki ráð fyrir að menn séu að hugsa um að setja nýja stjórnarskrá vegna þess að sú gamla hafi verið brotin svo oft, það væri ekki beint gæfulegt fyrir nýja stjórnarskrá.