140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[14:45]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins fyrst um stjórnarskrána. Ég tel að stjórnvöld ættu að byrja á því að fara að núgildandi stjórnarskrá áður en hugað er að því að koma með nýja stjórnarskrá.

Varðandi það sem þingmaðurinn sagði þá er hann í meginatriðum sammála mér varðandi það hvað er gjald og hvað er skattur. Eins og þingmaðurinn fór yfir er gjaldtaka heimil með reglugerðarheimild og þá skal gjaldið hvorki vera hærra né lægra en raunverulegt gjald.

Ég tók dæmi í gær frá umboðsmanni Alþingis um úrskurð þar sem aðili þurfti að greiða tvisvar fyrir númeraplötu á einkanúmer á bíl sinn og fór hann með málið til umboðsmanns Alþingis. Umboðsmaður Alþingis taldi skýrt að þessi tvítekna greiðsla mundi ekki flokkast sem gjöld heldur skattur. Á sínum tíma þurfti því Umferðarstofa að bakka með þessa gjaldtöku. Það eru ótalmörg svona dæmi frá umboðsmanni Alþingis.

Það er líka svolítið merkilegt þegar kannað er hvort þetta séu gjöld eða skattar að líta á markmiðsgreinina í 2. gr. því að þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Veiðigjöld eru lögð á í þeim tilgangi að mæta kostnaði ríkisins við rannsóknir, stjórn, eftirlit og umsjón með fiskveiðum og fiskvinnslu … “

Þetta gæti flokkast sem gjald ef við rýmkum þessa gjaldtökuheimild. Þetta er náttúrlega ekkert sérmerkt en þarna er þó alla vega vísir að því að um gjald sé að ræða. En seinni hluti greinarinnar er beinn skattur því að þar segir, með leyfi forseta:

„… og til að tryggja þjóðinni í heild hlutdeild í þeim arði sem nýting sjávarauðlinda skapar.“

Þarna stangast þetta strax á og ekki er hægt að kalla hvort tveggja gjöld með góðu móti því að um (Forseti hringir.) beina skattlagningu er að ræða sem framkvæmdarvaldið ætlar síðan að útdeila eftir hentisemi.