140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[14:50]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir ræðuna hér áðan. Það má segja hv. þingmanni það til hróss að hann er einn af þeim fáu þó, við skulum segja innan þröngs hóps á þessu þingi, sem hefur reynt að setja sig vel inn í sjávarútvegsmálin almennt. Sjálfur sendi hann þingmönnum öllum tillögur sínar um nýtt fiskveiðistjórnarkerfi síðasta haust, ef ég man rétt, vel útfærðar og í aðgengilegu formi sem ég veit að margir hlýddu á og kynntu sér þó að ekki séu allir sammála hv. þingmanni eins og gengur.

Hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni að ræða ætti leiðir sem gætu sætt alla. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni í því að við eigum að ræða leiðir sem er líklegt að sem flestir verði sáttir um. Niðurstaða þess frumvarps sem við ræðum hér er í meginmáli, í megindráttum, sama niðurstaða og komist hefur verið að margsinnis áður. Ég vitnaði til skýrslu auðlindanefndar 2000, ég vitna til skýrslu tvíhöfðanefndar 2001, ég vitna til skýrslu starfshóps um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða árið 2010. Þar er alltaf komið að þeirri meginniðurstöðu að það eigi að leyfisskylda nýtingu auðlindarinnar og það eigi að greiða fyrir það gjald, gjald af nýtingu auðlindar. Auðlindagjald er þetta sums staðar kallað eða rentugjald annars staðar.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Er hann ósammála því að það sé heppileg leið í þessu tilfelli að innheimta auðlindagjald, eins og er lagt til í frumvarpinu, eins og lagt var til árið 2010, 2001 og 2000? Er hann ósammála því meginsjónarmiði?