140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:03]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar áðan. Mig langar til að spyrja hv. þingmann nokkurra spurninga í fyrstu lotu, hið minnsta, þ.e. um stefnu flokks hennar í sjávarútvegsmálum eins og hún kristallast í landsfundarályktun flokksins þar sem segir m.a. í ályktun um sjávarútvegsmál, með leyfi forseta:

„Stjórnun fiskveiðanna verði blönduð leið, annars vegar á grunni aflahlutdeildar á skip og hins vegar úthlutun veiðileyfa sem taki mið af sértækum byggðaaðgerðum, hvatningar til nýsköpunar og til þess að auðvelda aðgengi nýrra aðila að útgerð.“

Þar segir einnig að nýtingarsamningar verði í um 20 ár.

Í stefnu Framsóknarflokksins segir sömuleiðis að í nýtingarsamningunum skuli kveðið á um veiðiskyldu og takmarkað framsal og sömuleiðis að gjald af nýtingu auðlindarinnar verði hóflegt og tengt afkomu greinarinnar

Ég geri ráð fyrir því að Framsóknarflokkurinn hafi farið vel yfir það frumvarp sem hér um ræðir og borið það saman við stefnu flokksins. Mig langar til að spyrja hv. þingmann að því hvort sá hluti stefnunnar sem ég vitnaði til áðan samrýmist í grundvallaratriðum því sem fram kemur í frumvarpinu, þ.e. um leyfið, hóflega gjaldið, tímalengdina o.s.frv. Getum við verið sammála um þessi meginsjónarmið? Snýst ágreiningur okkar ef til vill fyrst og fremst um stærðir, hvað er hóflegt gjald, hvað það er mikið í krónum og aurum talið, hve mikið magn er í hluta 2?