140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:07]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem var um mjög margt áhugaverð. Í þeim gögnum sem fyrir liggja er ljóst að borist hafa allalvarlegar athugasemdir varðandi framsal skattlagningarvalds. Komið hafa fram athugasemdir um að frumvarpið fari á svig við stjórnarskrána og eru þau sjónarmið reifuð í nefndarálitum, sérstaklega hjá 1. minni hluta þar sem sagt er að frumvarpið veki áleitnar spurningar um hvort skýrleiki réttarheimildarinnar fyrir gjaldtökunni sé nægilega skýr og hvort hún sé fullnægjandi samkvæmt stjórnarskrá. Þá hefur verið varpað fram spurningum um hvort framsalið sé ekki of víðtækt. Stjórnarskráin segir, eins og við þekkjum, að skattlagningarvaldið sé hjá Alþingi en hér er í raun verið að framselja það til framkvæmdarvaldsins.

Varðandi hlutfallið þá er það náttúrlega ekki það sama á hverju ári. Síðan er talað um að komið gætu upp spurningar varðandi afturvirkni laga. Afturvirkni laga þykir nú aldrei góð, hún þykir nánast algjörlega óforsvaranleg þegar um er að ræða skattlagningu og stjórnarskráin leggur bann við slíkri skattlagningu.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, af því að ég geri ráð fyrir því að hv. þingmenn hafi skoðað skattalegu hliðina á þessu, hvort hún sé sammála þessum athugasemdum og deili þessum áhyggjum með þeim fjölmörgu sem gert hafa athugasemdir og skrifað umsagnir um málið. Hvað er til ráða þegar lagt er fram frumvarp á Alþingi um veigamiklar skattahækkanir sem felur líklega í sér brot á stjórnarskrá?