140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:16]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um veiðigjöld. Ég hef í einni ræðu farið yfir helstu sjónarmið mín í því máli en náði þó ekki að ljúka máli mínu, talaði einhvern tímann eftir miðnætti fyrr í þessari viku, og langar því að hlaupa í stuttu máli yfir þau meginatriði í þessu máli sem ég hef athugasemdir við.

Frú forseti. Við lifum þá tíma í íslensku samfélagi að efnahagslífið þarf virkilega að taka sterkum tökum og styrkja þarf stöðu ríkissjóðs. Allir landsmenn hafa skilning á því. Flestallir sem ég hef heyrt í, sama hvar þeir starfa, hafa skilning á því að við þurfum öll að leggja okkar af mörkum, sama hvar við erum. Og það höfum við Íslendingar öll gert.

Við höfum öll fundið fyrir þeim niðurskurði sem ríkisstjórnin hefur farið í. Það er eitthvað sem við finnum fyrir í daglegu lífi okkar, t.d. varðandi heilsugæsluna og slíka þjónustu. En það er ekki sama hvernig hlutirnir eru gerðir. Þegar verið er að skera niður þarf að mínu mati að gera það með heildarhagsmuni í huga þannig að þeir sem verða fyrir niðurskurði sjái að eitthvert jafnræði sé í því sem verið er að gera. Að sama skapi er mikilvægt þegar ríkissjóður er að reyna að auka tekjur sínar að það sé gert á sanngjarnan hátt, ekki sé gengið of nærri þeim sem gert er að greiða þá fjármuni sem ríkissjóður er að reyna að afla sér og að það sé gert skynsamlega þannig að sú skattheimta sem lögð er til valdi ekki því tjóni að viðkomandi aðilar nái ekki endum saman í fyrirtækjarekstri sínum, eða á þeim heimilum sem þeir reka.

Í þessu máli liggja fyrir fjölmargar umsagnir. Flestallar eru neikvæðar, leyfi ég mér að fullyrða. Í umsögn frá sérfræðingunum sem flestallir hafa vísað til hér, í álitsgerð þeirra Daða Más Kristóferssonar og Stefáns B. Gunnlaugssonar, eru þessi sjónarmið tekin saman. Það er alveg ljóst að þeir treysta sér ekki einu sinni til að reikna út það gjald sem lagt er til vegna þess að aðferðafræðin sé svo skökk. Vissulega hafa verið lagðar fram ákveðnar breytingartillögur á þessu máli en engu að síður er mín skoðun sú að hér sé um að ræða allt of hátt gjald.

Ég skil heldur ekki af hverju ekki er talað um hlutina eins og þeir eru. Við erum hér að tala um skattheimtu, veiðigjald sem er í raun veiðiskattur og ég leyfi mér að fullyrða að þetta er landsbyggðarskattur vegna þess að meiri hluti þeirra fyrirtækja sem ætlunin er að leggja þessar stórauknu álögur á starfar á landsbyggðinni. Það birtist okkur í þeim háværu mótmælum sem berast hvaðanæva af landsbyggðinni, frá sjávarútvegsbyggðunum.

Það er ekki eingöngu svo, frú forseti, að þessar athugasemdir berist frá útvegsmönnum, að þeir einir hafi áhyggjur. Því fer fjarri. Við erum hér með athugasemdir frá sveitarfélögum, frá Alþýðusambandinu, frá sjómönnum og landverkafólki og flestöllum þeim sem starfa í þessari grein. Það er því ekki hægt að segja að hér sé um að ræða mál sem varðar eingöngu okkur sem hér stöndum og förum með löggjafarvaldið og útvegsmenn. Það er fjarri því að svo sé.

Frú forseti. Sjávarútvegurinn er undirstöðuatvinnugrein okkar. Við eigum að vera stolt af því. Mér finnst stundum í umræðunni, þegar við erum að tala saman, bæði hér í þinginu og þegar horft er á það sem nær inn á síður fjölmiðlanna og í sjónvarp, að menn séu svolítið búnir að gleyma því að það er sjávarútvegurinn sem skapar gríðarlegar gjaldeyristekjur hér á landi og hefur í raun gegnum árin lagt undirstöðu að okkar góða velferðarkerfi og okkar góða samfélagi.

Þegar á brattann er að sækja í íslensku samfélagi og í íslensku efnahagslífi þurfum við að búa að sterku atvinnulífi. Sem betur stendur sjávarútvegurinn traustum fótum. Við eigum miklar auðlindir í hafinu sem við berum vonandi gæfu til að nýta allri þjóðinni til hagsbóta. Auðvitað er ekki sama hvernig það er gert og auðlindin í hafinu er takmörkuð. Og þegar takmörkuð auðlind er til skiptanna og settar eru reglur um hvernig eigi að skipta henni, um nýtinguna á henni, þá verða aldrei allir sáttir. Það gildir einu hvaða kerfi við búum til utan um takmarkaða auðlind, það verða aldrei allir sáttir.

Ég stend ekki hér og held því fram að núverandi kerfi sé gallalaust, alls ekki. Bent hefur verið á fjölmarga þætti sem vert er að skoða. En þegar fara þarf í slíkt tel ég mjög mikilvægt að það sé gert í samvinnu og í samráði líkt og ég taldi að meiningin væri varðandi fiskveiðistjórnarkerfið. Ég hélt að flestallir stjórnmálamenn, sama úr hvað flokki þeir væru, hefðu talað þannig á ákveðnum tíma og meira að segja sest saman til nefndarstarfa sem skilaði ákveðinni niðurstöðu. En síðan birtist okkur það mál sem er reyndar enn fast í atvinnuveganefnd, um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu, og nú hefur verið blásið til samstöðufundar kl. 4 á Austurvelli til að mótmæla samráðsleysinu í þessum tveimur málum. Það segir okkur að hér er ekki nógu vel að verki staðið og ég hef áhyggjur af því.

Á sínum tíma var sett á það fiskveiðistjórnarkerfi sem er við lýði í dag og það hafði afleiðingar. Það leiddi til fækkunar fiskiskipa, fækkunar sjómanna og fækkunar fiskvinnslustöðva og til mikillar hagræðingar í greininni. Þetta er það sem gerðist. Þessar breytingar voru á sínum tíma mjög sársaukafullar, höfðu miklar afleiðingar fyrir margar sjávarbyggðir í landinu og enn þann dag í dag hafa þær afleiðingar áhrif á afstöðu fólks til sjávarútvegskerfisins. Óánægja hefur mælst með þetta kerfi í skoðanakönnunum, vissulega. En við megum ekki gleyma því af hverju ráðist var í að setja þetta kerfi á fót og hvernig ástandið var í íslenskum sjávarútvegi áður en kerfið kom til.

Kostir þessa kerfis eru þeir að ríkisstyrkir eru úr sögunni og landsmenn þurfa ekki að búa við stanslausar gengislækkanir vegna hagsmuna sjávarútvegsins. Auðvitað kostaði hagræðingin störf á sínum tíma, eins og ég sagði hér áðan, en við höfum í staðinn fengið aukinn arð af fiskveiðiauðlindinni, skynsamlegri fjárfestingu. Það er það sem skiptir meginmáli. Ég ítreka það sem ég sagði áðan: Kerfið okkar er ekki fullkomið frekar en önnur mannanna verk og það verður að fara yfir hvaða atriðum menn geta komið sér saman um að breyta. En ég tel mikilvægast af öllu að menn reyni að vinna saman að því.

Frú forseti. Andstæðingar þessa kerfis stjórna nú landinu okkar og hafa lagt fram þessi tvö frumvörp sem ég leyfi mér að tala um bæði í einu. Ég tel þau tengjast það sterkum böndum að maður geti ekki eingöngu horft á frumvarp til laga um veiðigjöld, við hljótum að þurfa að vita á hvaða grunni sjávarútvegurinn á að standa, sjávarútvegurinn sem við ætlumst til að geti greitt þessi veiðigjöld. Það þarf að horfa á bæði málin í senn. En fyrir mér birtist þetta þannig að stefna ríkisstjórnarinnar sé í raun í því falin að ríkisvæða aflaheimildirnar og skattleggja greinina allt of mikið. Ég tel að þegar þetta tvennt fari saman fáum við ekki björgulega niðurstöðu og ekki niðurstöðu sem er íslenskri þjóð í hag. Þess vegna fer alltaf jafnmikið fyrir brjóstið á mér þegar þeir þingmenn sem styðja þetta mál koma hér fram og segjast leggja þessar breytingar til í ljósi almannahagsmuna. Það séu almannahagsmunir að breyta kerfinu á þennan hátt. Ég get einfaldlega ekki séð samhengi þarna á milli.

Forsætisráðherra sagði hér í ræðu eða andsvari, líklega fyrir tveimur dögum, að breytingarnar væru gerðar með jafnræði í huga, til að gæta jafnræðis. Auðvitað má ekki gleyma því að hér er verið að leggja til ofurskattlagningu á eina grein. Það þarf að horfa á jafnræðið frá öllum hliðum, ekki bara út frá þröngri sýn forsætisráðherra.

Það er niðurstaða þeirra sérfræðinga sem skoðað hafa þetta mál að sá skattur sem lagður er til hér sé langt umfram gjaldþol sjávarútvegsins. Þessi veiðiskattur mun veikja sjávarútvegsplássin en 80 til 90% aflaheimilda hefur verið úthlutað til skipa á landsbyggðinni þannig að við sjáum að þetta er landsbyggðarskattur. Við sjáum það af viðbrögðum sjávarútvegsbyggðanna hér víða um landið að þau hafa þungar áhyggjur af þessu.

Það er augljóst að afleiðingar þessara gríðarlegu skattahækkana verða þær að fyrirtækin munu þurfa að hagræða enn frekar. Og hvað þarf þá að gera? Það þarf að fækka starfsfólki og það þarf að reyna að draga saman í launum til starfsmanna fyrirtækjanna, það er augljóst. Þess vegna sjáum við þessa miklu samstöðu gegn þessu máli, þeirra sem starfa í landi, þeirra sem sigla út á sjó og afla hráefnisins um borð í skipin og síðan þeirra sem reka sjávarútvegsfyrirtækin, auk þeirra fjölmörgu sem reka þjónustufyrirtæki og þjónusta þessa mikilvægu atvinnugrein.

Sjávarútvegurinn er grundvallaratvinnugrein og við þekkjum það að þegar hann verður fyrir áfalli verður öll íslenska þjóðin fyrir áfalli. Áhrifin af skattheimtunni munu til lengri tíma verða þau að draga úr tekjum ríkisins af sjávarútvegi. Og hvað gerist þá? Þá versna lífskjör almennings í landinu. Enn og aftur, frú forseti, skil ég ekki hvernig hægt er að fara fram með þetta mál og tala um almannahagsmuni og þá síður um hitt málið sem ég má varla ræða hér, um fiskveiðistjórnarkerfið sem enn er í nefnd.

Þær breytingar sem lagðar voru fram á þessu máli, þar sem sérfræðingar og fjármálaráðherra hafa sagt að áætlað sé að þær muni lækka fjárhæðina sem mun renna í ríkissjóð niður í 15 milljarða kr., segja mér að þetta gjald sé enn of hátt. Auk þess sem þær breytingar svara ekki þeim viðamiklu athugasemdum sem borist hafa og varða það að þetta stangist allt saman á við stjórnarskrána þar sem hér sé verið að framselja skattlagningarvald til nefndar. Samkvæmt stjórnarskránni fer Alþingi Íslendinga með skattlagningarvaldið og ákvæði sem kveða á um skatta verða að vera skýr og gerðar eru athugasemdir við hvort tveggja í þeim álitum og umsögnum sem borist hafa.

Frú forseti. Ég nefndi það í upphafi máls míns að við lifum erfiða tíma í efnahagslífi okkar, og auðvitað skortir á tekjur til ríkissjóðs og jafnframt þarf frekari samdrátt í útgjöldum ríkissjóðs, en við megum ekki verða of svartsýn. Við eigum auðvitað þessar miklu auðlindir, bæði í jarðhita og vatni og í sjónum og ekki síst eigum við mannauð. Þess vegna erum við rík og við megum ekki gleyma því. Þó að þessi ræða mín og sú umræða sem hér hefur farið fram hafi á köflum verið frekar neikvæð þá megum við ekki gleyma þeirri staðreynd.

Við erum að tala um gríðarlega mikla auðlind sem við eigum samanborið við aðrar þjóðir á heimsvísu. Við erum bara 300.000 manna þjóð og eigum miklar aflaheimildir og möguleika til að nýta gríðarlega miklar auðlindir. Það er okkar helsti styrkur og þess vegna hef ég haldið því fram að okkur beri að halda sjálfstæði okkar í hvívetna og ekki fórna þessum náttúruauðlindum, eða yfirstjórninni á þeim, með því að ganga til dæmis í Evrópusambandið. En það er annað mál sem ég ætla ekki að eyða dýrmætum tíma í að tala um hér.

Það er annað orð sem stjórnarliðar nota í sífellu til að rökstyðja mál sitt um það að koma þurfi þessum breytingum á. Það er réttlæti. Víða í ræðum hefur mikið verið talað um réttlæti og að taka þurfi veiðiréttindin af þeim sem nú hafa þau, úthluta þeim á einhvern annan hátt, koma þeim til ríkisins sem muni svo einhvern veginn deila þeim á aðra. En þá spyr maður: Hverja aðra? Hverjir eiga aðrir að sækja sjóinn og skapa þau verðmæti sem þjóðarbúinu eru svo nauðsynleg? Og þá líka: Hvenær eru réttlætinu náð? Þegar allir Íslendingar fá einn fisk eða einn hlut eða hvernig á þetta eiginlega að vera, hvenær er réttlætinu náð?

Það er auðvelt að nota stór orð eins og réttlæti, jafnræði, almannahagsmuni o.s.frv. þegar verið er að halda fram ákveðnum málflutningi. En þegar maður skoðar rökin þá nær maður ekki alveg hvernig fólk hugsar þetta. Ég er stolt af því að við eigum þessa sterku atvinnugrein. Ég er stolt af því fólki sem fer og veiðir fiskinn okkar, kemur með aflann að landi, fer síðan inn í landvinnsluna og skapar enn meiri verðmæti úr því sem búið er að draga að landi. Ég er stolt af fólki sem hefur barist fyrir því að efla fyrirtæki sín og byggt upp markaði erlendis til að koma okkar góða hráefni í verð. Ég tel mig ekki vera þess umkomna að segja: Heyrðu, nú má ég. Ég ætla að fara og veiða fisk, ég kann þetta betur en þú.

Það fólk sem starfar í þessari grein, hvort sem við erum að tala um landverkafólk, sjómenn eða útvegsmenn, kann þetta og gerir þetta afskaplega vel og hefur með eigin framtaki byggt upp starf sitt og fyrirtæki sín. Þetta er grundvallaratvinnugrein þjóðarinnar. Hún skilar miklum gjaldeyristekjum í íslenskt þjóðarbú og mér er það nánast óskiljanlegt hvers vegna menn ráðast í það að vega að grundvelli þessarar atvinnugreinar á þessum miklu óvissutímum.

Við þekkjum það öll sem fylgjumst með umræðunni að þörf er á mikilli fjárfestingu í sjávarútveginum. Við vitum að þeir sem starfa í greininni hafa lýst því yfir að þeir geti einfaldlega ekki farið í fjárfestingar vegna þess að óvissan sé svo mikil um framtíðina. Menn geta ekki farið í að endurnýja skipaflotann eða fiskvinnsluna vegna þess að menn vita ekki hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Og það er ekki út af óvissu sem skapast af náttúrunnar völdum, það er ekki vegna hættu á að hér verði aflabrestur, það er ekki vegna þess að við höfum ofveitt auðlindina. Nei, það er út af stjórnmálamönnum, það er út af okkur sem hér störfum, okkur sem að mínu viti eigum að eyða öllum okkar kröftum í að efla reksturinn, að reyna að rétta af hallann á íslenskum fjárlögum, að reyna að efla atvinnulífið þannig að það geti skilað meiri tekjum til ríkisins. Nei, í staðinn fyrir að einbeita okkur að því stöndum við hér og ræðum frumvarp þar sem lagðar eru til þvílíkar skattahækkanir á grundvallaratvinnugrein okkar að menn hafa siglt flotanum í land til að geta komið á samstöðufund og mótmælt samráðsleysinu í málinu. Þetta er staða sem ég tel að við eigum öll að hafa miklar áhyggjur af, að ekki sé talað um það frumvarp sem enn er í atvinnuveganefnd.

Ég er stolt af því að við eigum íslenskan sjávarútveg sem grundvallaratvinnugrein. Ég er stolt af því fólki sem starfar innan þeirrar greinar. Ég er ánægð með að við eigum arðbæran sjávarútveg sem skilar arði án þess að fá til þess styrki úr ríkissjóði. Ég er stolt af því fólki sem fer með aflann á markað, sem selur hann erlendis í samkeppni við ríkisstyrktan sjávarútveg, til dæmis hjá Evrópuþjóðunum. Ég tel að við eigum að vera stolt af þessari staðreynd og klappa á bakið á því fólki sem fer í þessu erfiðu verkefni og skapar þessi miklu verðmæti. Þetta snýst jú um verðmætasköpun, með því að auka verðmætasköpun aukum við hagsældina í landinu, við aukum hana ekki með því að skattleggja grundvallaratvinnugreinina okkar í drep.