140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:39]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Auðvitað er ég stolt af íslenskum sjávarútvegi og þeim arði sem hann skilar í þjóðarbúið, eins og ég fór yfir í löngu máli í ræðu minni. En hv. þingmaður getur ekki skautað fram hjá fjölmörgum álitum sem borist hafa um málið, meðal annars frá sérfræðingum sem telja gjaldið vera allt of hátt. Ég skil ekki hvernig hv. þingmaður, sem telst nú vera einn helsti sérfræðingur annars stjórnarflokksins í efnahags- og skattamálum, getur talað með þeim hætti um þessi mál.

Þeir sérfræðingar sem skilað hafa álitum, og ég vitna sérstaklega til þeirra ágætu manna, Daða Más Kristóferssonar og Stefáns B. Gunnlaugssonar, hafa lagt mat á gjaldið og telja það vera allt of mikið. Síðan komu reyndar breytingartillögurnar fram og þar erum við að tala um að minnsta kosti 15 milljarða kr. Ég tel að það sé allt of mikið.

Ég sagði í upphafi ræðu minnar að við vissum öll að við þyrftum að leggja okkar af mörkum nú þegar efnahagsástandið er eins og það er í dag. Þar er ég líka að tala um fyrirtækin í landinu, ekki bara einstaklingana. En það gengur ekki að segja: Nú, við ætlum bara að skattleggja greinina svona mikið og ef menn vilja ekki taka því, þau fyrirtæki sem eru fyrir í greininni, mega einhverjir aðrir koma í staðinn. Hvers konar virðing er það fyrir þeim sem þegar starfa í greininni, þeim sem byggt hafa upp öflug fyrirtæki og viðskiptasambönd erlendis til að koma íslenskum afla, íslenskum vörum, frá okkur þannig að við fáum sem hagstæðast verð fyrir hann?

Hv. þingmaður minntist ekki á eitt í andsvari sínu sem ég óska eftir að hann gefi álit sitt á, þó að kannski sé ekki tilhlýðilegt að gagnspyrja í andsvari, það varðar athugasemdir sem gerðar eru gagnvart stjórnarskránni og þeirri skattheimtu sem hér er lagt upp með, skattheimtu sem er að mínu mati andstæð stjórnarskránni.