140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:41]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi það síðastnefnda tel ég fulla ástæðu til að fara yfir það hvort í einhverjum atriðum kunni að vera um að ræða framsal löggjafarvaldsins á skattlagningarvaldi, það er tæknilegt úrlausnarefni sem ég tel þó mikilsvert að farið verði yfir.

Hvað varðar það sem hv. þingmaður kallar ofurskattlagningu þá var athugasemdum þeirra sérfræðinga sem þingmaðurinn vísaði sérstaklega til að verulegu leyti mætt í breytingartillögum við 2. umr. og veiðigjaldið lækkað umtalsvert. Það stendur nú í rétt liðlega 30 kr. í því mikla góðæri sem nú er í sjávarútvegi en mun lækka í 9,50 kr. ef hagurinn versnar.

Við eigum ekkert að tala í milljörðum eða prósentum eða vísa í einhverjar skýrslur. Við erum Íslendingar, við vitum býsna mikið um fisk. Það er ekkert mjög flókið að fjalla bara um gjaldið sem krónur á hvert kíló, það skilja flestir Íslendingar. Hvort það er sanngjarnt eða ósanngjarnt að borga á bilinu 9,50 kr. upp í kannski 35 kr. fyrir einkaréttinn á því að veiða þorskígildiskíló á Íslandsmiðum held ég það sé hverjum manni augljóst að það er bara sanngjarnt endurgjald.

Það lýsir mikilli virðingu fyrir þeim sem stundað hafa sjóinn og sinnt mörkuðunum að láta þá áfram njóta mesta hluta aflans á Íslandsmiðum, einkaréttar á þeim aðgangi, á svona sanngjörnu verði. Hv. þingmaður hefur talað fyrir markaðslausnum og þeirri hugmynd að markaðurinn einn verðleggi rétt. Ég get fullyrt það við hv. þingmann að ef við byðum þessar sömu heimildir á markaði yrði verðið margfalt það endurgjald sem ríkið fer fram á í þessu frumvarpi. Það sýnir og sannar að það er sanngjarnt endurgjald sem ríkið fer fram á.