140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:09]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður geri sér ekki grein fyrir því að 90% allra veiðiheimilda eru úti á landi, hvorki meira né minna. Sá hagnaður sem orðið hefur vegna krónunnar, sem hefur vissulega bjargað Íslendingum í þeim þrengingum sem við glímum nú við, hefur farið til nýsköpunar og atvinnulífs á svæðunum.

Það er þess vegna sem allar þessar ályktanir koma frá sveitarstjórnum úti á landi. Af hverju skyldu sveitarstjórnirnar, sem í eiga sæti samflokksmenn hv. þm. Helga Hjörvars og líka félagar úr Vinstri grænum, skrifa undir þessar ályktanir?

Ég er því algjörlega ósammála að frumvarpið hafi tekið allnokkrum breytingum. Það sem breyttist var það að menn gátu leiðrétt þau mistök sem sett voru fram í reiknireglunni og gerðu það að verkum að skattlagningin, sem átti að vera afturvirk, hefði numið um 50 milljörðum kr. Það er eðlilegt að menn leiðrétti svona mistök, guði sé lof. Ég skal líka segja hv. þingmanni að við framsóknarmenn höfum sagt að við séum reiðubúnir að samþykkja veiðigjald sem nemur þeirri fjárhæð sem lögð var til í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2012, það nemur um 9,5 milljörðum kr. ef ég man það rétt, það er um það bil sú fjárhæð.

Ég hef gagnrýnt þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem ekki hafa komið fram og sagt hvað þeir vilja, en ég átta mig líka á því að með því að segja hvað við erum tilbúnir að samþykkja gefum við höggstað á okkur sem ríkisstjórnin hefur ekki hikað við að nýta sér. Ég efast ekki um að þingmaðurinn muni gera það hér á eftir.