140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:14]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þarna liggur hundurinn grafinn. Það er endalaust verið að gefa í skyn að þessi hagnaður, sem er vissulega af útgerðinni, renni í einhver gæluverkefni úti í löndum. Þá ætla ég að endurtaka: Af hverju skyldu þá allar þessar sveitarstjórnir lýsa yfir óánægju sinni og tala um landsbyggðarskatt? Allir þessir sveitarstjórnarmenn eru bara venjulegt fólk sem vill gæta hagsmuna byggðarlaga sinna en ekki einhverra sérhagsmuna. Mér þætti vænt um ef hv. þingmaður mundi sjá sóma sinn í því að hlusta á svar mitt við spurningum sínum en ekki hlaupa í burtu.

Hér er um ögn meiri skattahækkanir að ræða. Ég held að hv. þingmaður geri sér enga grein fyrir því hversu miklir peningar 6 milljarðar kr. eru og hvað hægt er að gera við 6 milljarða kr. í dag. Það er rekstur Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri í eitt og hálft ár, hvorki meira né minna, og Háskólans á Akureyri í svipaðan tíma. Það eru engar smáfjárhæðir sem hv. þingmaður gerir lítið úr og svo segir hann að þingmenn stjórnarandstöðunnar etji saman landsbyggð og höfuðborg. Hverjir skyldu nú vera að því aðrir en ríkisstjórnarflokkarnir sjálfir? Eru það ekki þeir sem segja: Við ætlum að taka peninginn og setja í samgönguverkefni. Var það ekki það sem þeir sögðu, að sniðganga fjárlaganefnd Alþingis algjörlega, vaða yfir hana á skítugum skónum? Hverjir skyldu vera að etja saman einstaka landshlutum með því að lofa að taka aflaheimildir frá einu byggðarlagi og setja þær í annað?

Svo sagði hv. þingmaður að við byggjum við stórkostlega gott árferði þegar verðbólgan hefur verið yfir 6% síðustu 12 mánuði. Ég held að ég og hv. þingmaður lifum ekki í sama veruleika, frú forseti.