140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:16]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég get að mörgu leyti tekið undir með hv. þingmanni að eðlilegt væri að fresta þingfundi á meðan fundurinn væri hér úti og þá mundi kannski verða hlustað á það sem þar væri sagt. En því miður hef ég ekki mikla trú á því að þingmenn stjórnarflokkanna muni hlusta frekar en fyrri daginn enda eru þeir mjög sjaldséðir hér í salnum og taka lítinn þátt í umræðunni.

Hv. þingmenn, stjórnarliðar, koma hér og halda því fram að það sé ofboðslega gott árferði í sjávarútvegi, sem það sannarlega er sem betur fer eftir reyndar mörg mögur ár þegar gengið var mjög sterkt. En þegar farið er svona glæfralega fram í skattlagningunni, af því að nú vitum við að fjárfesting í sjávarútvegi hefur verið í sögulegu lágmarki meðal annars vegna þeirrar óvissu sem er í kerfinu, vil ég spyrja hv. þingmann: Telur hann það þá ekki varhugavert og það þurfi að skoða sérstaklega vel þegar menn skoða áhrifin af skattlagningunni hvort það hafi áhrif á einmitt það að menn fari í fjárfestingar til að tryggja okkur sem hæsta verð og bestan aðgang að mörkuðunum þannig að við fáum í reynd besta verð sem völ er á?

Síðan vil ég spyrja hv. þingmann um það sem kom fram í andsvörum áðan og hvort hann geti tekið undir það sem mér fannst mjög sérkennilegt hjá hv. þm. Helga Hjörvar að gera athugasemdir við ræðu hv. þingmanns um að verið væri að etja saman höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni, en á sama tíma að halda því fram að þeir sem starfa í sjávarútvegi séu allir að kaupa bílaumboð eða séu í braski og einhverju svoleiðis og hafi í raun og veru nýtt alla fjármunina sem eru í greininni til þeirra hluta en ekki til þess að byggja upp í samfélögunum þar sem þeir starfa.