140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:21]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Mig langar að spyrja hv. þingmann um eitt atriði sem hann kom töluvert inn á í ræðu sinni. Það er einhvern veginn þannig að hv. þingmenn gera sér ekki allir grein fyrir því að með því að fara inn í sjávarbyggðirnar með fyrirhugaða skattlagningu — sem áætluð er á næsta ári um 15 milljarðar fyrir utan það að skerða aflahlutdeildirnar og aflamarkið, þetta liggur kannski nærri 20 milljörðum þegar allt er tínt saman — þá er verið að taka það út úr þeim samfélögum. Hv. þingmaður reyndi að benda á það í ræðu sinni og varaði við þeim afleiðingum sem það hefur til uppbyggingar í viðkomandi samfélögum hvort heldur sem það er í afleiddum störfum, beinum störfum eða öðrum. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um það. Á sama tíma hafa ríkisstjórnarflokkarnir komið fram með þeim hætti að skera á niður alla grunnþjónustu á landsbyggðinni. Skilaboðin eru því skýr, það á skera meira niður og pína fólk til að borga fleiri skatta, þennan landsbyggðarskatt.

Því vil ég spyrja: Ef lögð yrðu á mjög há gjöld, t.d. á Orkuveitu Reykjavíkur, það er náttúrlega viðurkennt að hún hefur yfir auðlind að ráða sem er heita vatnið, mundu hv. þingmenn þá ekki gera sér grein fyrir því að það gæti kannski haft áhrif á búsetuskilyrðin á höfuðborgarsvæðinu ef hækka þyrfti heita vatnið eða kyndinguna hjá fólki um helming eða eitthvað slíkt? Það gefur augaleið að það yrði með þeim hætti.

Síðan vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki mikilvægt að fylgjast með hvað muni gerast við þessa skattlagningu. Í sumum tilfellum, eins og hv. þingmaður vitnaði reyndar til í ræðu sinni, er verið að taka meira núna í hækkun á auðlindagjaldinu en heildartekjur viðkomandi sveitarfélaga.