140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:36]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna sem er önnur ræða hans sem ég hlýði á í dag. Hv. þm. Pétur Blöndal hefur, eins og ég sagði fyrr í dag, sett sig afar vel inn í málefni sjávarútvegsins og unnið sínar eigin tillögur en ekki tillögur Sjálfstæðisflokksins sem hann tilheyrir og fylgir að málum á þingi. Tillögur hv. þingmanns eru að mörgu leyti ágætlega útfærðar og auðskiljanlegar. Að flestu leyti er auðvelt að átta sig á því hvernig leikreglurnar eiga að vera og hvert markmiðið er, eins og hv. þingmaður sagði áðan, þ.e. að það náist að koma hér á fullkomnu markaðskerfi með aflaheimildum í sjávarútvegi.

Má ekki segja sem svo að hv. þingmaður sé í raun að leggja til með tillögum sínum hina fullkomnu fyrningarleið ef markmiðið er að innkalla allar heimildirnar og dreifa þeim síðan til einstaklinga í samfélaginu sem fá þá að minnsta kosti ígildi heimilda til að framselja eða selja? Þá mundi myndast markaður meðal þjóðarinnar allrar og smátt og smátt safnaðist þetta saman þar sem það er hagkvæmast, samkvæmt tillögum hv. þingmanns. Er þetta ekki nánast hin hreina, tæra fyrningarleið sem leiðir síðan til fullkominna markaðslausna, eins og hv. þingmaður telur að sé besta leiðin hvað það varðar? Ég get alla vega ekki skilið það með öðrum hætti. Hv. þingmaður er í það minnsta ekki fylgjandi þeim niðurstöðum, sem ég fór yfir fyrr í dag, sem komið hafa fram frá fjölmörgum aðilum í skýrslum og tillögum sem unnar hafa verið hér jafnt og þétt á síðustu tveim áratugum. Ég vil því spyrja hv. þingmann: Er ekki rétt skilið hjá mér varðandi tillögur hv. þingmanns að hann vilji innkalla allar aflaheimildir, dreifa þeim til hvers einasta (Forseti hringir.) Íslendings og þá muni myndast hér hið fullkomna markaðskerfi í sjávarútvegi?