140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:43]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í því áliti og umsögn sem Þóroddur Bjarnason prófessor sendi með til atvinnuveganefndar er fjallað dálítið um áhrif á byggðaþróun og hversu slæmar afleiðingarnar verða af því kerfi sem við höfum sett upp, til dæmis varðandi hluta 2 sem verið er að skilgreina betur í nýju frumvarpi um stjórn fiskveiða. Það tengist auðvitað veiðileyfagjaldinu að nokkru leyti, strandveiðum, byggðaívilnunum og því sem þar er. Ekki hefur tekist að byggja upp byggðirnar með þessum hætti.

Hv. þm. Eygló Harðardóttir fór ofan í greinaskrif Vífils Karlssonar þar sem segir að 75% af umsvifum ríkisins séu í Reykjavík en aðeins 40% af skatttekjunum. Ef við erum sammála um að veiðigjaldið með þessari háu álagningu, án þess að það fari beint aftur til þeirra svæða þar sem auðlindin er og þar sem rentan verður til, renni síðan allt til ríkisins, hvaða aðrar leiðir sjáum við fyrir okkur? Hvaða aðrar leiðir sér hv. þingmaður fyrir sér? Það hefur til að mynda verið rætt um að aflaheimildirnar verði meira skilyrtar, þessi pottur 2, að annars vegar verði skilyrtar aflaheimildir og óskilyrtar, þessar skilyrtu gætu meðal annars tengst löndun og vinnslu eða einhverju slíku. Svo er auðvitað hinn möguleikinn að menn hreinlega taki fjármunina og færi þá aftur til í veiðigjaldafrumvarpinu, einhver ákveðin hlutföll. Hvernig líst hv. þingmanni á það? (Forseti hringir.) Þriðja leiðin væri auðvitað sú að menn færu í stórfelldan flutning á opinberri þjónustu út á land til þess að tryggja meira jafnræði hvað þetta varðar.