140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:47]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Þegar ég kom á þing fyrir mörgum árum síðan átti ég í andsvörum við hv. þm. Pétur H. Blöndal og fannst ekki tilefni til að svara síðara andsvari hans, ég féll frá orðinu og taldi ekki ástæðu til þess að orðlengja frekar um það efni sem við ræddum. Það varð til þess að hv. þm. Pétur H. Blöndal varð gríðarlega reiður og sár og fór í ræðustól undir dagskrárliðnum fundarstjórn forseta og sakaði mig um lítilsvirðingu í sinn garð sem þjóðkjörins fulltrúa og þar fram eftir götunum. Ég tók það mjög alvarlega og hef síðan leitast við að svara öðrum þjóðkjörnum fulltrúum þegar þeir beina til mín andsvörum. Þó að við kunnum að hafa ólíkar skoðanir eða vera ósáttir það þá er það bara skylda okkar við lýðræðislega umræðu að sinna því.

Það kom mér þess vegna mjög á óvart að hv. þingmaður skyldi ekki sýna hv. þm. Birni Val Gíslasyni þá virðingu (Forseti hringir.) að svara andsvari hans. Ég hef síðan verið upplýstur um að það hafi verið gert skipulega (Forseti hringir.) í umræðunni í dag. Ég vara sannarlega við því hér að menn fari með skipulögðum hætti að taka enn eitt skrefið til þess að grafa undan virðingu þessarar stofnunar með því að stunda einelti (Forseti hringir.) af þessu tagi. (Gripið fram í.)