140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:49]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég ætla aðeins að taka til máls varðandi það mál sem hv. þm. Helgi Hjörvar ræddi áðan. Það er ekki rétt að menn hafi með skipulögðum hætti neitað að fara í andsvör, ég held að það sé ekki rétt fyrir virðingu Alþingis, ég tek undir það. Ég hef hins vegar ákveðinn skilning á því að umræðan, sem verið hefur um það mál sem við höfum rætt hér í nokkra daga og hefur harðnað alveg gríðarlega í samfélaginu og í þingsal, hefur haft þær afleiðingar að ýmsir þingmenn hafa farið út af sporinu í orðum og orðavali. Það er óheppilegt og þess vegna er það umhugsunarefni fyrir þingið og forsætisnefndina hvernig við getum tryggt að þingmenn gæti betur orða sinna hver í garð annars og að þeim starfsháttum sem við viðhöfum í þinginu.