140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:11]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ef hv. þm. Skúli Helgason þekkir þjóðina jafn vel og ég þá þekkir hann hana ekki neitt. Ég þekki ekki þjóðina, ég hef ekki spjallað við hana. Hún er ekki hæstv. sjávarútvegsráðherra, ekki í mínum huga. Það er gífurlegur munur á ríki og þjóð, og í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir því að arðurinn af auðlindinni, sem sumir segja á helgistundum að sé þjóðareign og segja svo amen á eftir, renni til ríkisins. Arðurinn rennur í ríkishítina, hann er til ráðstöfunar fyrir þingmenn og ráðherra til að ráðstafa og kaupa sér atkvæði fyrir.

Þetta er einmitt málið og í þessu liggur misskilningurinn. Menn ætla sér að taka þessa þjóðareign og senda arðinn af henni til ríkisins. Fjármagnið á að fara í þessa fjárfestingaráætlun, sem er eflaust rosalega vinsælt, frú forseti, og skaffar mörg atkvæði í næstu kosningum.