140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:13]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í markmiðum þessa frumvarps sem við ræðum hér og um stjórn fiskveiða, ef við tökum þau sameiginlega, kemur fram að það eigi að treysta atvinnu og byggð í landinu, stuðla að farsælli samfélagsþróun með hagsmuni komandi kynslóða að leiðarljósi. Þess vegna langar mig að spyrja hv. þm. Skúla Helgason út í þær athugasemdir sem við höfum fengið frá ýmsum verkalýðsfélögum og hvernig hann vilji bregðast við þeim. ASÍ telur að of langt sé gengið í frumvarpinu með sértækum aðgerðum sem veikja rekstrargrundvöll sjávarútvegsins og spyr að því hvaða áhrif þær hafi á launahlutfall fiskverkafólks og sjómanna í sjávarútvegi og spyr hvort framtíð sjávarútvegsfyrirtækjanna sé stefnt í voða með sérstaka veiðigjaldinu.

Það segir frá einu stéttarfélagi, með leyfi forseta:

„Ljóst er að brottflutningur aflaheimilda […] mun rýra kjör verkafólks og getur orðið til lækkunar fasteignaverðs auk annarra óæskilegra áhrifa.“

Það segir í annarri ályktun stéttarfélags:

„Aðalfundur […] skorar á ríkisstjórn Íslands að framkvæma ítarlega rannsókn á hagrænum og félagslegum afleiðingum þeirra breytinga sem frumvörp um stjórn fiskveiða og veiðigjald muni hafa í för með sér á sjávarbyggðir, sjávarútveg, starfsöryggi og kjör launafólks í greininni.“

Ég held áfram að vitna í ummæli verkalýðsfélaga og ég vil taka það fram að margir fulltrúar þeirra komu á fund nefndarinnar og fluttu þar ákveðin rök fyrir sínum áhyggjum.

Það segir hér áfram:

„Það er ámælisvert að stjórnvöld hafi ekki framkvæmt ítarlega rannsókn á hagrænum og félagslegum afleiðingum þeirra breytinga sem frumvörpin munu hafa í för sér á sjávarbyggðir, sjávarútveg, starfsöryggi og kjör launafólks í greininni. SGS hefði talið eðlilegt að slík rannsókn hefði farið fram áður en svo viðamiklar breytingar á stjórn fiskveiða væru gerðar.“

Og áfram í annarri ályktun:

„Rétt er að geta þess að hundruð félagsmanna starfa í þessari grein bæði til sjós og lands (Forseti hringir.) og af því eru miklir hagsmunir í húfi fyrir félagsmenn að ekki sé verið að gera þannig breytingar á stjórn fiskveiða að þær ógni atvinnuöryggi þeirra. (Forseti hringir.) sem starfa í greininni.“

Hvernig vill hv. þingmaður bregðast við þessum ályktunum frá stéttarfélögum í landinu?