140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:39]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg laukrétt að sú greinargerð sem fylgdi með frumvarpinu er eina greinargerðin sem hefur verið gerð. Annar sérfræðinganna sem vann þá greinargerð hefur vissulega komið fyrir nefndina og fjallað um breytingartillögurnar og sagt, eins og ég hef greint frá í fyrri ræðum, að þær séu allar til bóta, sumar augljósar og hefðu í raun og veru átt að standa í frumvarpinu en aðrar eru afleiðingar þess að aðferðafræðin sem lögð er til í frumvarpinu er vonlaus, hún er útilokuð. Þær lagfæringar sem eru sannarlega jákvæðar byggja á einhverju sem er vonlaust.

Með tilliti til þess, ef menn breyta ekki þeim hugmyndum sem eru í frumvarpinu um stjórn fiskveiða, sem hafa gríðarleg áhrif á möguleika greinarinnar á að standa undir veiðigjöldum, var niðurstaða sérfræðingsins sú að hann stæði við þá niðurstöðu sem kemur fram í greinargerðinni þess efnis að fyrirtækin gætu ekki með góðu móti staðið undir þessu öðruvísi en að lenda í vandræðum og verða gjaldþrota sum hver af völdum þess.

Það er mjög áhugavert að heyra umræðu stjórnarliðanna sem koma ýmist í pontu og halda því fram að sjávarútvegurinn sé gjaldþrota og það skipti því engu máli hvernig við högum okkur eða koma og segja að sjávarútvegurinn standi svo vel að hægt sé að skattleggja hann upp á 25 milljarða leikandi. Það er auðvitað fráleitur málflutningur þegar menn koma hingað upp og segja: Það er mitt mat að sjávarútvegurinn geti greitt 15 milljarða — og að við séum búin að lækka gjaldið svo mikið í breytingartillögunum. Ég held að ég hafi sagt það í gær að ef menn hefðu lagt fram 100 milljarða veiðigjald og lækkað það síðan um 85 milljarða, væru þeir þá ekki frábærlega góðir? Það er jafnlítill grunnur sem liggur á bak við þá skoðun. (Forseti hringir.) Það þarf að fara yfir það (Forseti hringir.) hvort greinin þoli 15 milljarða eða 10 eða jafnvel eitthvað (Forseti hringir.) minna.