140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:52]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi það að ríkisstjórnin leitist við að ná niðurstöðu og sátt í ágreiningsmálum hefði til dæmis verið snjallt í Evrópusambandsmálinu að spyrja þjóðina fyrst hvort hún vildi fara í þá vegferð.

Varðandi stjórn fiskveiða, ef menn vilja ná niðurstöðu og sátt, hv. þm. Magnús Norðdahl, hefði verið skynsamlegast að hafa samráð við þá sem tengjast þessu máli, bæði hagsmunaaðila í greininni, sveitarfélög og sem flesta. Þá hefðu menn verið að reyna að ná niðurstöðu í ágreiningsmálum, ég er sammála því. En það er eins með þetta eins og markmið frumvarpsins, menn setja sér háleitar hugmyndir um hvað þeir ætla að gera og gera svo bara eitthvað allt annað og reyndar alveg þveröfugt satt best að segja, þeir búa til ágreining og efna til ófriðar eins og við sáum á Austurvelli í dag, því miður.

Varðandi þær fjárfestingar og hve mikill hluti hafi verið fjárfestur hér og þar og erlendis get ég bara sagt: Það hefur ekki verið nægilega kannað. Það er hins vegar vitað að fjárfesting í sjávarútvegi og reyndar í atvinnulífinu á Íslandi er í sögulegu lágmarki, meðal annars vegna þess að greininni er haldið í fullkominni óvissu. Það er líka sannleikur að þrátt fyrir hástemmdar og frasakenndar yfirlýsingar, ekki síst þingmanna Samfylkingarinnar, um að það sé svo og svo mikið af skuldum sjávarútvegsins orðið til vegna fjárfestingar erlendis, að af þessum 360 eða allt að því 400 milljörðum sem greinin skuldar eru 30 milljarðar ótengdir greininni, það eru nú öll ósköpin. Auðvitað er það há tala en það er ekkert í líkingu við það sem menn hrópa hér úr þessum ræðustól. Greinin hefur meira og minna verið að byggja sig upp og þess vegna er hagnaðurinn að aukast. Kvótakerfið hefur hjálpað til og menn hafa gengið skynsamlega fram og horft til langs tíma við að byggja upp fiskstofnana. Þeir hafa veitt skynsamlega (Forseti hringir.) og byggt upp markað. Þess vegna stendur Ísland vel (Forseti hringir.) þegar til lengri tíma er litið ef við hættum að beita öfgapólitík.